Fyrirtækið Leiguflugið ehf. var nýlega stofnað af þeim Einari Hermannssyni og Ásgeiri Erni Þorsteinssyni en Ásgeir hætti sem framkvæmdastjóri Ernis í haust. Undirheiti fyrirtækisins er Air Broker Iceland en slík fyrirtæki eru vel þekkt erlendis.
Ásgeir Örn, einn af stofnendum Leiguflugs, segir í samtali við Viðskiptablaðið að tilgangur fyrirtækisins sé að þjónusta viðskiptavini við að finna hentugustu lausnir og vinna þeir náið með bæði innlendum og erlendum flugaðilum.
„Við erum ekki að fara koma inn á markaðinn til að sækja á þau verkefni sem eru. Það eru bara tækifæri þarna úti sem eru vannýtt og við viljum bara stækka markaðinn fyrir alla. Við erum markaðsfyrirtæki sem er að markaðssetja leiguflug á Íslandi,“ segir Ásgeir, en bætir þó við að hann sé ekki einungis að horfa á íslenska markaðinn.
Ásgeir hefur sjálfur verið í flugbransanum í 20 ár og segir að fyrirtækið sé í höndum manna sem vita um hvað málin snúast og þekkja þeir vel til geirans. Hann segir að Leiguflugið sé þegar komið með verkefni og samninga og útilokar ekki að fyrirtækið muni stækka eftir því sem árin líða.
„Grænlandsmarkaðurinn er til dæmis að verða mun stærri, sérstaklega með lengingu flugbrauta. Hugsunin er bara að auka verkefnin, ekki fara í baráttu um þau. Við erum ekki hér í bullandi samkeppni, heldur í bullandi samstarfi,“ segir Ásgeir.