Eik fast­eignafélag hf. skilaði 9,5% vexti í leigu­tekjum á fyrsta árs­fjórðungi ársins 2025, sam­kvæmt árs­hluta­reikningi félagsins fyrir tíma­bilið janúar til mars.

Félagið segir rekstur hafa verið í samræmi við áætlanir og að af­koma hafi styrkst milli ára, með hækkun í bæði tekjum og rekstrar­hagnaði.

Sam­kvæmt til­kynningu til Kaup­hallarinnar námu rekstrar­tekjur félagsins á tíma­bilinu 2.964 milljónum króna, saman­borið við 2.709 milljónir á fyrsta fjórðungi 2024.

Þar af voru leigu­tekjur 2.589 milljónir króna og jukust um 9,5%. Félagið metur raun­vöxt leigu­tekna á milli ára sem 4,7%. Rekstrar­kostnaður hækkaði í 1.147 milljónir króna.

EBITDA, mælt sem rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar, sölu­hagnað og af­skriftir, nam 1.817 milljónum króna og jókst um 6,9% frá sama tíma­bili árið áður.

Hagnaður fyrir tekju­skatt var 1.708 milljónir króna og heildar­hagnaður sam­stæðunnar 1.366 milljónir. Hagnaður á hvern hlut var 0,4 krónur.

NOI-hlut­fall félagsins (rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar sem hlut­fall af leigu­tekjum) var 69,6% á tíma­bilinu, lægra en 71,0% á fyrsta fjórðungi 2024.

Eigið fé um 54 milljarðar

Heildar­eignir félagsins námu 160.890 milljónum króna í lok mars. Þar af voru fjár­festingar­eignir bók­færðar á 147.606 milljónir króna og eignir til eigin nota 5.816 milljónir. Eigið fé félagsins var 54.027 milljónir og eigin­fjár­hlut­fallið 33,6%.

Vaxta­berandi skuldir voru 87.336 milljónir króna. Nettó veðhlut­fall félagsins – hlut­fall skulda að frá­dregnu hand­bæru fé á móti virði fast­eigna og lóða – var 54,6%. Hlut­fall verð­tryggðra lána nam 97,3% í lok tíma­bilsins.

Í febrúar gaf félagið út skulda­bréfa­flokkinn EIK 150536 með 3,8% verð­tryggðum vöxtum.

Heildarút­gáfa í flokknum var 6.000 milljónir króna í lok mánaðarins. Sam­kvæmt til­kynningu var hluti and­virðisins notaður til að greiða inn á eldri bankalán.

Viðræður um kaup á Festingu hf.

Félagið seldi fast­eignina að Rauðarár­stíg 27 í febrúar með sölu­hagnaði upp á 42 milljónir króna. Eignin hafði verið að mestu tóm eftir að leigu­taki yfir­gaf hana sumarið 2024.

Þá var til­kynnt í mars að ferli vegna mögu­legs sölu­ferils á Glerár­torgi á Akur­eyri væri lokið án niður­stöðu. Í til­kynningu segir að áfram verði unnið að þróun og nýtingu eignarinnar, þar á meðal í tengslum við íbúða­upp­byggingu.

Viðræður standa yfir um kaup á Festingu hf. sem, ef þær ganga eftir, myndu bæta við eigna­safnið rúm­lega 43 þúsund fer­metrum.

Virðisút­leigu­hlut­fall félagsins var 94,3% í lok fjórðungsins, sem er 0,7 pró­sentu­stigum hærra en við áramót.

Leigu­samningar voru undir­ritaðir um tæp­lega 6.700 fer­metra, þar á meðal alla 2. hæð Skeifunnar 8, viðbótar­leigu í Holta­smára 1, og samninga fyrir 700 fer­metra í Smára­torgi 3 og 500 fer­metra í Kvosinni. Á sama tíma fékk félagið um 4.600 fer­metra til baka úr leigu.

Félagið segir áður birtar horfur fyrir árið 2025 séu óbreyttar. Sam­kvæmt þeim er gert ráð fyrir rekstrar­tekjum á bilinu 12.055–12.545 milljónir króna, leigu­tekjum á bilinu 10.375–10.800 milljónir og EBITDA á bilinu 7.620–7.940 milljónir króna.

Stefnt er að 95% virðisút­leigu­hlut­falli fyrir árs­lok og að skrifað verði undir samninga um 6.400 fer­metra af þróunar­fer­metrum til viðbótar þeim 4.600 sem þegar hafa verið samnings­bundnir.

Hreiðar Már Her­manns­son tók við sem for­stjóri félagsins þann 10. apríl. Stjórn félagsins samþykkti í apríl að greiða út arð að fjár­hæð 3.393 milljónir króna vegna rekstrarársins 2024, í tveimur greiðslum, sú fyrri var greidd 23. apríl og sú síðari er áformuð 8. október.