Eik fasteignafélag hf. skilaði 9,5% vexti í leigutekjum á fyrsta ársfjórðungi ársins 2025, samkvæmt árshlutareikningi félagsins fyrir tímabilið janúar til mars.
Félagið segir rekstur hafa verið í samræmi við áætlanir og að afkoma hafi styrkst milli ára, með hækkun í bæði tekjum og rekstrarhagnaði.
Samkvæmt tilkynningu til Kauphallarinnar námu rekstrartekjur félagsins á tímabilinu 2.964 milljónum króna, samanborið við 2.709 milljónir á fyrsta fjórðungi 2024.
Þar af voru leigutekjur 2.589 milljónir króna og jukust um 9,5%. Félagið metur raunvöxt leigutekna á milli ára sem 4,7%. Rekstrarkostnaður hækkaði í 1.147 milljónir króna.
EBITDA, mælt sem rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar, söluhagnað og afskriftir, nam 1.817 milljónum króna og jókst um 6,9% frá sama tímabili árið áður.
Hagnaður fyrir tekjuskatt var 1.708 milljónir króna og heildarhagnaður samstæðunnar 1.366 milljónir. Hagnaður á hvern hlut var 0,4 krónur.
NOI-hlutfall félagsins (rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar sem hlutfall af leigutekjum) var 69,6% á tímabilinu, lægra en 71,0% á fyrsta fjórðungi 2024.
Eigið fé um 54 milljarðar
Heildareignir félagsins námu 160.890 milljónum króna í lok mars. Þar af voru fjárfestingareignir bókfærðar á 147.606 milljónir króna og eignir til eigin nota 5.816 milljónir. Eigið fé félagsins var 54.027 milljónir og eiginfjárhlutfallið 33,6%.
Vaxtaberandi skuldir voru 87.336 milljónir króna. Nettó veðhlutfall félagsins – hlutfall skulda að frádregnu handbæru fé á móti virði fasteigna og lóða – var 54,6%. Hlutfall verðtryggðra lána nam 97,3% í lok tímabilsins.
Í febrúar gaf félagið út skuldabréfaflokkinn EIK 150536 með 3,8% verðtryggðum vöxtum.
Heildarútgáfa í flokknum var 6.000 milljónir króna í lok mánaðarins. Samkvæmt tilkynningu var hluti andvirðisins notaður til að greiða inn á eldri bankalán.
Viðræður um kaup á Festingu hf.
Félagið seldi fasteignina að Rauðarárstíg 27 í febrúar með söluhagnaði upp á 42 milljónir króna. Eignin hafði verið að mestu tóm eftir að leigutaki yfirgaf hana sumarið 2024.
Þá var tilkynnt í mars að ferli vegna mögulegs söluferils á Glerártorgi á Akureyri væri lokið án niðurstöðu. Í tilkynningu segir að áfram verði unnið að þróun og nýtingu eignarinnar, þar á meðal í tengslum við íbúðauppbyggingu.
Viðræður standa yfir um kaup á Festingu hf. sem, ef þær ganga eftir, myndu bæta við eignasafnið rúmlega 43 þúsund fermetrum.
Virðisútleiguhlutfall félagsins var 94,3% í lok fjórðungsins, sem er 0,7 prósentustigum hærra en við áramót.
Leigusamningar voru undirritaðir um tæplega 6.700 fermetra, þar á meðal alla 2. hæð Skeifunnar 8, viðbótarleigu í Holtasmára 1, og samninga fyrir 700 fermetra í Smáratorgi 3 og 500 fermetra í Kvosinni. Á sama tíma fékk félagið um 4.600 fermetra til baka úr leigu.
Félagið segir áður birtar horfur fyrir árið 2025 séu óbreyttar. Samkvæmt þeim er gert ráð fyrir rekstrartekjum á bilinu 12.055–12.545 milljónir króna, leigutekjum á bilinu 10.375–10.800 milljónir og EBITDA á bilinu 7.620–7.940 milljónir króna.
Stefnt er að 95% virðisútleiguhlutfalli fyrir árslok og að skrifað verði undir samninga um 6.400 fermetra af þróunarfermetrum til viðbótar þeim 4.600 sem þegar hafa verið samningsbundnir.
Hreiðar Már Hermannsson tók við sem forstjóri félagsins þann 10. apríl. Stjórn félagsins samþykkti í apríl að greiða út arð að fjárhæð 3.393 milljónir króna vegna rekstrarársins 2024, í tveimur greiðslum, sú fyrri var greidd 23. apríl og sú síðari er áformuð 8. október.