Rekstrartekjur Eikar á fyrstu sex mánuðum ársins námu 5,5 milljörðum en þar af voru leigutekjur 4,8 milljarðar samkvæmt árshlutareikningi félagsins. Mun það vera sambærilegt og á fyrstu sex mánuðum ársins 2023.
Heildarhagnaður Eikar á tímabilinu var 2,8 milljarðar sem er töluverð lækkun á milli ára en félagið hagnaðist um 8,7 milljarða á fyrstu sex mánuðum ársins 2023.
Í uppgjöri félagsins segir að rekstrarhagnaður félagsins sé lítillega undir áætlun. Lækkunin er fyrst og fremst tilkomin vegna lakari nýtingar Hótels 1919 og tilfallandi virðisrýrnunar viðskiptakrafna. En útleigan gengur betur en áætlað var sem og uppbygging eigna í þróun.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir nam 3,5 milljörðum samanborið við 3,8 milljarða á sama tímabili árið áður. Hagnaður fyrir tekjuskatt nam 3,5 milljörðum.
NOI hlutfall (þ.e. rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingu og afskriftir sem hlutfall af leigutekjum) nam 69,9% á fyrstu sex mánuðum ársins 2024 samanborið við 78,4% fyrir sama tímabil 2023.
Félagið hefur uppfært horfur fyrir árið 2024 og væntir þess að EBITDA ársins verði á bilinu 7.280 – 7.580 milljónir á föstu verðlagi út árið miðað við vísitölu neysluverðs til verðtryggingar í september 2024.
„Uppfærðar horfur taka m.a. mið af væntingum Radisson Hotel Group um lægri afkomu Hótels 1919 en vonir stóðu til í upphafi árs. Þrátt fyrir að handbært fé frá rekstri sé nokkuð lægra en fyrir sama tímabil í fyrra þá áætlar félagið að handbært fé frá rekstri fyrir árið 2024 verði hærra en árið 2023,“ segir í uppgjöri félagsins.
Heildareignir Eikar námu 147.753 milljörðum 30. júní 2024. Þar af eru fjárfestingareignir að virði 138,3 milljarðar sem skiptast í fjárfestingareignir í útleigu að fjárhæð 127,4 milljarðar, fjárfestingareignir í þróun 4,5 milljarða, byggingarheimildir og lóðir 3,7 milljarða. Fyrirframgreidd gatnagerðargjöld 13 milljónir og leigueignir að fjárhæð 2,6 milljarðar.
Eigið fé félagsins nam 49,2 milljörðum í lok tímabilsins og var eiginfjárhlutfall 33,4%.
Á aðalfundi félagsins þann 11. apríl 2024 var samþykkt að greiða út arð til hluthafa vegna rekstrarársins 2023 að fjárhæð 2.540 milljónir og var hann greiddur þann 30. apríl 2024 til hluthafa.
Heildarskuldir félagsins námu 98,4 milljörðum þann 30. júní 2024. Þar af voru vaxtaberandi skuldir 81 milljarður og tekjuskattsskuldbinding 13,2 milljarðar.
Veðhlutfall félagsins, þ.e. nettó staða vaxtaberandi skulda á móti virði fasteigna, byggingarheimilda og lóða var 56,4%.
„Stjórn Regins hf. (nú Heimar hf.) tilkynnti þann 29. apríl sl. um afturköllun á samrunatilkynningu þess til Samkeppniseftirlitsins vegna valfrjáls yfirtökutilboðs til hluthafa Eikar sem lagt var fram þann 6. júlí 2023. Jafnframt samþykkti fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands afturköllun á tilboðinu þann 10. maí 2024. Félagið hefur við afturköllun tilboðsins frelsi til athafna og skoðar nú tækifæri í eignasafni sínu, frekari útfærslur á fjármagnsskipan þess og möguleika á fjölgun tekjustofna,“ segir í uppgjöri félagsins.