Sam­kvæmt árs­hluta­upp­gjöri Kaldalóns fyrir fyrsta árs­fjórðung jukust leigu­tekjur félagsins um 31 pró­sent frá sama tíma­bili í fyrra og námu alls 1.275 milljónum króna.

Rekstrar­hagnaður fyrir mats­breytingar var 963 milljónir króna, en hærri fjár­magns­kostnaður dró úr hagnaði sem nam 29 milljónum króna fyrir skatta. Hrein fjár­magns­gjöld á tíma­bilinu voru 946 milljónir.

Rekstrar­hagnaðar­hlut­fall (NOI) var 76 pró­sent á fjórðungnum, lítil­lega lægra en á sama tíma­bili árið áður. Félagið bendir á að meiri­hluti veltu­tengdra tekna ársins skili sér á síðari hluta ársins. Aðeins 13 pró­sent þeirra hafi fallið til á fyrsta fjórðungi.

„Rekstur Kaldalóns á fyrsta árs­fjórðungi var í takti við væntingar. Félagið hefur vaxið um­tals­vert milli ára og voru leigu­tekjur fyrsta árs­fjórðungs rúm­lega 30% hærri en á sama tíma­bili í fyrra. Félagið birti í fyrsta skipti árs- og sjálf­bærniskýrslu á fjórðungnum og gaf út nýjan verð­tryggðan skulda­bréfa­flokk, KALD 150436, auk þess að gefa út græn skulda­bréf undir KALD 041139 GB,“ segir Jón Þór Gunnars­son, for­stjóri Kaldalóns.

Fjár­festingar­eignir félagsins námu 73,7 milljörðum króna í lok tíma­bilsins en höfðu hækkað um 276 milljónir frá áramótum, aðal­lega vegna þróunar­verk­efna sem verða tekju­berandi síðar á árinu.

Vaxta­berandi skuldir lækkuðu um 473 milljónir og veð­setningar­hlut­fall stendur nú í 56 pró­sentum.

Kaldalón nýtti einnig fjár­magns­markaði vel á tíma­bilinu og gaf út skulda­bréf fyrir sam­tals 3.300 milljónir króna. Þar af voru 1.800 milljónir í græn skulda­bréf sem fóru í endur­fjár­mögnun eldri lána á verri kjörum.

Félagið hyggst upp­færa af­komu­spá sína við birtingu hálfsárs­upp­gjörs í ágúst, en núverandi spá frá mars gerir ráð fyrir rekstrar­tekjum á bilinu 5.350 til 5.550 milljónir króna og rekstrar­hagnaði upp á 4.200 til 4.350 milljónir.

„Nær engin breyting er á mati fjár­festingar­eigna frá áramótum. Reiknaður veginn fjár­magns­kostnaður í gang­virðis­mati hækkar um 0,11% frá áramótum sem hefur neikvæð áhrif á mats­verð fast­eigna. Verðlagsþróun og þróunar­eignir sem urðu tekju­berandi á fjórðungnum hafa jákvæð áhrif á út­reiknað gang­virði fjórðungsins. Greiddar voru niður vaxta­berandi skuldir þannig að veð­setningar­hlut­fall lækkar um 1% frá áramótum og er 56% í lok fjórðungsins. Félagið gerir ráð fyrir að ganga frá frekari samþykktum kaup­samningum, háð hefðbundnum fyrir­vörum í fast­eigna­við­skiptum, á öðrum árs­fjórðungi,” segir Jón Þór.