Samkvæmt árshlutauppgjöri Kaldalóns fyrir fyrsta ársfjórðung jukust leigutekjur félagsins um 31 prósent frá sama tímabili í fyrra og námu alls 1.275 milljónum króna.
Rekstrarhagnaður fyrir matsbreytingar var 963 milljónir króna, en hærri fjármagnskostnaður dró úr hagnaði sem nam 29 milljónum króna fyrir skatta. Hrein fjármagnsgjöld á tímabilinu voru 946 milljónir.
Rekstrarhagnaðarhlutfall (NOI) var 76 prósent á fjórðungnum, lítillega lægra en á sama tímabili árið áður. Félagið bendir á að meirihluti veltutengdra tekna ársins skili sér á síðari hluta ársins. Aðeins 13 prósent þeirra hafi fallið til á fyrsta fjórðungi.
„Rekstur Kaldalóns á fyrsta ársfjórðungi var í takti við væntingar. Félagið hefur vaxið umtalsvert milli ára og voru leigutekjur fyrsta ársfjórðungs rúmlega 30% hærri en á sama tímabili í fyrra. Félagið birti í fyrsta skipti árs- og sjálfbærniskýrslu á fjórðungnum og gaf út nýjan verðtryggðan skuldabréfaflokk, KALD 150436, auk þess að gefa út græn skuldabréf undir KALD 041139 GB,“ segir Jón Þór Gunnarsson, forstjóri Kaldalóns.
Fjárfestingareignir félagsins námu 73,7 milljörðum króna í lok tímabilsins en höfðu hækkað um 276 milljónir frá áramótum, aðallega vegna þróunarverkefna sem verða tekjuberandi síðar á árinu.
Vaxtaberandi skuldir lækkuðu um 473 milljónir og veðsetningarhlutfall stendur nú í 56 prósentum.
Kaldalón nýtti einnig fjármagnsmarkaði vel á tímabilinu og gaf út skuldabréf fyrir samtals 3.300 milljónir króna. Þar af voru 1.800 milljónir í græn skuldabréf sem fóru í endurfjármögnun eldri lána á verri kjörum.
Félagið hyggst uppfæra afkomuspá sína við birtingu hálfsársuppgjörs í ágúst, en núverandi spá frá mars gerir ráð fyrir rekstrartekjum á bilinu 5.350 til 5.550 milljónir króna og rekstrarhagnaði upp á 4.200 til 4.350 milljónir.
„Nær engin breyting er á mati fjárfestingareigna frá áramótum. Reiknaður veginn fjármagnskostnaður í gangvirðismati hækkar um 0,11% frá áramótum sem hefur neikvæð áhrif á matsverð fasteigna. Verðlagsþróun og þróunareignir sem urðu tekjuberandi á fjórðungnum hafa jákvæð áhrif á útreiknað gangvirði fjórðungsins. Greiddar voru niður vaxtaberandi skuldir þannig að veðsetningarhlutfall lækkar um 1% frá áramótum og er 56% í lok fjórðungsins. Félagið gerir ráð fyrir að ganga frá frekari samþykktum kaupsamningum, háð hefðbundnum fyrirvörum í fasteignaviðskiptum, á öðrum ársfjórðungi,” segir Jón Þór.