Fasteignafélagið Reginn skilaði tæplega 1,2 milljarða hagnaði á fyrsta ársfjórðungi. Til samanburðar hagnaðist félagið um 1,6 milljarða á sama tíma í fyrra. Þetta kemur fram í nýbirtum árshlutareikningi félagsins.

Rekstrarhagnaður Regins fyrir matsbreytingu hækkaði um 13% á milli ára og nam 2,1 milljörðum króna. Velta félagsins nam 3,25 milljörðum króna á fjórðungnum og hækkuðu leigutekjur um 16% milli ára.

Bókfært virði fjárfestingareigna Regins í lok árs var tæpir 178 milljarðar króna samanborið við tæpa 174 milljarða í lok árs 2022.

Virði fjárfestingareigna félagsins að frádregnum leigueignum er metið á 174 milljarða króna. Safnið samanstendur af 100 fasteignum sem eru alls um 373 þúsund fermetrar. Eignasafn Regins hefur minnkað, bæði í fjölda eigna sem og fermetrum.

Lætur af störfum eftir 14 ár

Um miðjan febrúar tilkynnti Helgi S. Gunnarsson að hann myndi láta af störfum hjá félaginu eftir að hafa stýrt félaginu frá stofnun þess, eða undanfarin 14 ár. Helgi mun formlega láta af störfum 11. maí næstkomandi, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Í lok mars var gengið frá ráðningu Halldórs Benjamíns Þorbergssonar í starf forstjóra Regins hf. Halldór hefur undanfarin ár gegnt stöðu framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins en starfaði áður sem framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar Icelandair Group hf.

Gengi bréfa Regins hækkaði um 2,5% í 40 milljón króna viðskiptum í dag. Hlutabréfaverð félagsins stendur nú í 25 krónum á hlut. Það hefur lækkað um tæplega þriðjung á síðustu tólf mánuðum.