Gauti Reynisson, framkvæmdastjóri Heimstaden hf., segir ljóst að mikil uppsöfnuð þörf sé á íbúðum á húsnæðismarkaði. Hann segir ekki húsnæði í dag fyrir allt það innflutta vinnuafl sem á eftir að koma hingað til lands, en Samtök atvinnulífsins telja þörf á tólf þúsund erlendum starfsmönnum á næstu fjórum árum. „Við erum með 1700 íbúðir í eignasafninu á Íslandi, en einungis fjórar íbúðir eru auglýstar til útleigu. Þetta lýsir stöðunni ágætlega, það er lítið framboð á lausum leiguíbúðum og við höfum sjaldan verið með jafn góða nýtingu og núna.“
Hann telur leiguþak draga úr sveigjanleika leigumarkaðarins. „Þar sem leiguþak hefur verið kynnt hefur það yfirleitt dregið úr framboði á leiguíbúðum. Fólk er þá lengur í íbúðum sem henta þeim síður og það flytur síður.“
Gauti segir að þótt ekki sé leiguþak hérlendis taki óhagnaðardrifnu leigufélögin mið af framfærslu fólks og eignastöðu. Hann segir slík félög góða viðbót við markaðinn og samfélagslega mikilvæg. „Við fögnum óhagnaðardrifnum leigufélögum. Við erum ekki að keppast við að leigja fólki íbúðir sem ræður ekki við að borga leiguna.“ Hann segir þó spurning hvað sé raunhæft að vera með mörg óhagnaðardrifin leigufélög og hvaða félag á að sinna hvaða hópi fólks.
Grasið grænna hinum megin?
Heimstaden starfar í tíu löndum og er með 150 þúsund íbúðir í eignasafni sínu. Félagið hefur þannig reynslu af mismunandi leigumörkuðum með mismunandi reglum. Auk þess koma um 60% af leigutekjum félagsins frá mörkuðum þar sem einhvers konar hömlur eru á leiguverði. Gauti segir reglurnar mismunandi á milli landa og veltir fyrir sér umræðunni um leiguþak.
„Stjórnmálamenn tala eins og það sé alltaf einhver ein lausn og að allt sé betra í öðrum löndum. Oft er spurt af hverju við getum ekki verið með leigumarkað eins og í Norðurlöndunum. Þá spyr ég, ertu að tala um Svíþjóð, Danmörk eða eitthvað annað land? Fyrirkomulagið er mismunandi í hverju einasta landi.“
Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.