Telegraph birti í morgun ítarlega grein um húsnæðismarkaðinn í Barselóna þar sem fréttamiðillinn kallar eftir því að yfirvöld á Spáni láti af stríði sínu gegn fasteignaeigendum í veikri tilraun til að laga leigumarkaðinn.
Um 1,7 milljón íbúar búa í Barselóna en 32 milljónir ferðamanna heimsækja borgina árlega sem hefur valdið því að erlendir fjárfestar hafa keypt mikið af íbúðum sem nýttar eru til útleigu.
Samkvæmt katalónska fjölmiðlinum El Periódico fá leiguíbúðir sem bjóða upp á tæplega 180 þúsund króna mánaðarleigu um 500 umsóknir á fyrsta sólarhringnum.
Heimamenn hafa beint spjótum sínum að útlendingum en um fjórðungur íbúa í Barselóna koma eru útlendingar og jókst fjöldi þeirra um 10,4% í fyrra meðan heimamönnum fjölgaði um 0,1%.
Í fótspor Franco með sama árangri
Í veikri von um að reyna að ná tökum á ástandinu ákvað heimastjórnin í Katalóníu að setja á leiguþak samhliða því að sósíalistaríkisstjórnin í Madrid reyndi að styrkja rétt leigjenda.
Hins vegar bendir allt til þess að þessar aðgerðir séu að hafa þveröfug áhrif en sósíalistarnir voru að vonast eftir.
Samkvæmt Telegraph var um að ræða tvö högg í sömu andrá fyrir fasteignaeigendur en yfirvöld lögðu á leiguþak og bönnuðu skammtímaleigu fyrir ferðamenn. Um er að ræða í þriðja sinn sem leiguþak er sett á í Katalóníu en einræðisherrann Franco fór í sambærilega aðgerð árið 1946 sem gjöreyðilagði húsnæðismarkaðinn er fjárfesting dró verulega saman.
Katalónía reyndi að koma leiguþaki á í kórónuveirufaraldrinum en hæstiréttur Spánar sagði aðgerðina ólöglega.
Það sem leiguþakið hefur gert er að fjöldi langtímaleigusamninga í Barselóna hefur dregist saman um 65% frá árinu 2019 í samanburði við aðeins 4% samdrátt á Spáni.
Þá hafa átök fjölskyldna eftir langtímaleiguíbúðum stóraukist en á öðrum ársfjórðungi 2019 voru um níu fjölskyldur að meðaltali að keppast um hverja íbúð. Á öðrum ársfjórðungi 2024 voru að meðaltali 63 fjölskyldur að berjast um hverja íbúð.
Hægt er að lesa ítarlega greiningu Telegraph um áhrif leiguþaksinshér.