Brian Chesky, forstjóri Airbnb, segir að fyrirtækið ætli að leita leiða til að lækka meðalverð á hverri gistinótt. Þetta kemur fram í grein hjá Financial Times.

Hver gistinótt á Airbnb nam að meðaltali 156 Bandaríkjadölum á þriðja ársfjórðungi, sem er 40% hækkun frá árinu 2019. Chesky segist óánægður með hækkunina á milli tímabila og leggur til tveggja aðgerða til að stemma stigu við hækkununum.

Í fyrsta lagi ætlar fyrirtækið að leita leiða til að auka framboð af gististöðum á vefsíðunni, meðal annars með því að borga núverandi gestgjöfum til að hjálpa nýjum mögulegum gestgjöfum að koma sinni eign í leigu. Í öðru lagi ætlar félagið að ráðast í langtíma aðgerðir til að lækka þrifgjöld á eignunum, kostnaður sem bætist ofan á reikning leigutakans.

Chesky segir að hækkun leiguverðs á Airbnb sé að mestu leyti knúin áfram af áðurgreindum þáttum: litlu framboði af eignum á vinsælum áfangastöðum og miklum hækkunum á þrifgjöldum.

„Gjöld vegna þrifa er stærsta vandamálið. Þú átt von á einu [leiguverði], en færð eitthvað allt annað,“ segir Chesky, en gjöldin hafa hækkað um allt að helming á sumum svæðum frá árinu 2019.