Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkaði um 2,1% í apríl en hún hefur ekki hækkað meira á einum mánuði síðan í júní 2020. Þjóðskrá birti nýjar tölur í gær en vísitalan sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs.
Leiguverð hefur á höfuðborgarsvæðinu hefur nú hækkað um 7,9% á síðustu tólf mánuðum. Árshækkun vísitölunnar mældist meiri í febrúar eða um 8,4%. Þar áður fór tólf mánaða hækkun vísitölunnar síðast yfir 8% í janúar 2019.
Sjá einnig: Stefnir í hækkun leiguverðs
Leiguverð hefur þó ekki fylgt hækkun íbúðaverðs frá því að kórónuveirufaraldurinn hófst. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 22,5% á undanförnum tólf mánuðum samkvæmt Þjóðskrá.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri lýsti því í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í febrúar að hann hefði minni áhyggjur af stöðu húsnæðiseigenda heldur en fólks sem væri ekki komið inn á fasteingamarkaðinn. Með hærri vöxtum muni færri hafi möguleika á að kaupa fasteign sem leiðir af sér að fleiri muni leita á leigumarkaðinn með tilheyrandi eftirspurnaráhrifum.