Vísitala leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,9% í janúarmánuði eftir 1,6% hækkun í desember og 2,0% hækkun í nóvember. Vísitalan hefur nú hækkað um 2,7% á síðustu þremur mánuðum. HMS birtir nýjar tölur í dag.
Árshækkun vísitölunnar, sem sýnir breytingar á vegnu meðaltali fermetraverðs, mældist 8,1% í janúar. Til samanburðar mældist árshækkunin 10,3% í desember og hafði þá ekki mælst meiri frá ársbyrjun 2018.
Vísitala leiguverðs byggir á þinglýstum leigusamningum. HMS segir að hafa verði í huga að ekki öllum leigusamningum er þinglýst og ekki sé því víst að úrtakið gefi óbjagaða mynd af þróun leiguverðs.
„HMS hefur nú tekið í notkun leiguskrá í húsnæðisgrunni sínum. Því má búast við að þinglýstum leigusamningum fækki og þar með verði enn meiri hætta á að vísitala byggð á þinglýstum samningum gefi ekki rétta mynd af verðþróun.“
Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 0,5% í janúar, samkvæmt tölum sem HMS birti í gær. Árshækkun íbúðaverðs mælist nú 14,9%.