Leiguverð höfuðborgarsvæðinu lækkaði um 1,0% á mars og apríl ef miðað er við vísitölu leiguverðs HMS. Á síðustu tólf mánuðum hefur leiga á svæðinu hækkað um 6,7% en það gerir 0,5% lækkun á föstu verðlagi.
Í nýrri mánaðarskýrslu HMS segir að leiguverðið sé orðið lægra en fyrir ári síðan og hefur það ekki mælst lægra að raunvirði síðan í ágústmánuði 2017.
Þá hafi hlutfall leiguverðs á höfuðborgarsvæðinu á móti launum í apríl verið það lægsta sem mælst hefur en gögnin ná aftur til byrjun árs 2013. Umrætt hlutfall náði hámarki í lok árs 2018 en mælist nú 15,6% lægra en það gerði þá.
„Það ætti því að jafnaði að vera auðveldara fyrir fólk á leigumarkaði að ná endum saman nú en það var á árunum 2017 – 2020,“ segir hagfræðideild HMS.
Sjá einnig: Leiguverð taki við sér
Einnig er bent á að leiguverð sem hlutfall af íbúðaverði hafi farið hratt lækkandi. Í skýrslunni segir að meðal ástæðna fyrir þeirri þróun séu lágir vextir, og þar af leiðandi minni fjármagnskostnaður við að eiga íbúð. Þá hafi framboð leiguíbúða að öllum líkindum farið vaxandi, m.a. vegna íbúða sem settar voru í leigu af óhagnaðardrifnum leigufélögum og verulegum samdrætti í skammtímaleigu vegna fækkunar ferðamanna.
„Nú eru vextir hins vegar teknir að hækka, ferðafólki að fjölga og íbúafjöldinn vex hratt. Allt gæti þetta sett mark sitt á leigumarkaðinn á komandi misserum.“

Mynd tekin úr mánaðarskýrslu HMS.