Innan skamms verður stórt framfaraskref stigið fyrir íslenskt atvinnulíf er gervigreindarlausnin Copilot frá Microsoft mun styðja að fullu við íslensku, enda fléttast Copilot lausnin inn í allar helstu lausnir Microsoft 365. Í byrjun vikunnar stóð KPMG á Íslandi fyrir ráðstefnu þar sem farið var yfir möguleika í notkun gervigreindar fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.

Kit Ingwersen starfar hjá Microsoft í Danmörku en hún hefur víðtæka reynslu af stafrænni umbreytingu og innleiðingu lausna sem byggja á gervigreind. Hún hefur gegnt lykilhlutverki í innleiðingu lausna á borð við Microsoft Copilot og var meðal ræðumanna á ráðstefnunni.

Spurð um hvaða þýðingu íslenskustuðningur í Copilot hafi fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir segir hún að í því felist fjölmörg tækifæri fyrir þau. „Fullur stuðningur Copilot við íslenska tungu gerir fólki kleift að eiga samskipti við Copilot á íslensku og eykur þannig aðgengi og bætir notendaupplifun til muna. Þá mun þetta hafa mjög jákvæð áhrif á afköst og allt verkefnaflæði því þegar tungumálahindranir hverfa getur starfsfólk nýtt möguleika Copilot til fulls, brugðist hraðar við, veitt betri þjónustu og aukið afköst.“

Hún segir Microsoft hafa gripið til ýmissa ráðstafana til að tryggja að Copilot sé gagnlegur og nákvæmur fyrir íslenskumælandi notendur. „Til dæmis höfum við unnið með íslenskufræðingum og málfræðingum, nýtt íslensk gögn til að stilla af og aðlaga gervigreindarlíkönin að íslensku og einnig byggt mikið á endurgjöf frá notendum sem nýtt er til stöðugra endurbóta.“

Innleiðing Copilot á íslensku opni á fjölmörg tækifæri sem felist m.a. í því að sjálfvirknivæða ýmis rútínuverk, aðstoða við textavinnu og auka þannig framleiðni og afköst. „Þá mun íslenskukunnátta Copilot gera fyrirtækjum og stofnunum kleift að veita persónulegri og skilvirkari þjónustu. Loks getur gervigreindartæknin almennt aukið nýsköpun, hraðað þróun á nýjum vörum og þjónustu og hjálpað fyrirtækjum að vera samkeppnishæf.“

Copilot sé frábrugðinn hefðbundnum gervigreindaraðstoðarmönnum vegna mikillar samþættingar við Microsoft 365, auk þess sem Copilot nýti gögn úr Microsoft Graph. „Þessi samþætting gerir Copilot kleift að veita samþætta og sérsniðna aðstoð og auka afköst í forritum eins og Word, Excel og Teams. Þetta eru útbreiddustu hugbúnaðarlausnir heims og samþætting við Copilot skiptir því sköpum. Ég fullyrði að íslenskukunnátta Copilot verður leikbreytir fyrir íslensk fyrirtæki og stofnanir.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.