Þórir Viðarsson og Harpa Ægisdóttir ætluðu sér upprunalega bara að stofna lítinn rafíþróttaskóla í Grafarvogi en Þórir er búinn að spila tölvuleiki í 24 ár og stofnaði meðal annars rafíþróttadeild KR.

Þegar hann starfaði hjá rafíþróttafyrirtækinu Arena Gaming í Kópavogi fyrir nokkrum misserum kynntist hann Bretanum Adam Scanlon og áður en langt um leið fengu þau þrjú hugmyndina um að opna eigin leikjasal.

„Við búum hérna við hliðina á Egilshöll og krakkarnir okkar eru í fótbolta, þannig við erum hér nánast alla daga og það er alltaf troðið bílastæði. Það koma hingað inn um 1,3 milljónir manna á ári, sem er svipað og í Hörpu,“ segir Þórir.

Hugmyndin um að opna leikjasal er nokkurra ára gömul en þegar Covid skall á þurfti að setja þau áform á ís. Þremenningarnir náðu svo loksins að funda með Regin í apríl í fyrra og undirrituðu samninginn núna í janúar.

Rýmið sem hýsir leikjasalinn var alveg tómt en þar áður var gamall fimleikasalur. Þórir segir að með nýja salnum verði hægt að tryggja æðislegan dag í Egilshöllinni.

Nánar er fjallað um leikjasalinn í Viðskiptablaði vikunnar. Áskrifendur geta nálgast umfjöllunina í heild sinni hér.