Þrátt fyrir að Íslendingar verji 1,7% landsframleiðslu í leikskólamál, sem sé um tvöfalt meira en flestar aðrar þjóðir, þurfi margar fjölskyldur að þreyja langa bið eftir dagvistun. Þetta kemur fram í umfjöllun The Guardian um stöðu leikskólamála á Íslandi.

Þá er fjallað um mótmæli foreldra vegna stöðu leikskólamála í Reykjavík, en síðustu 15 ár hafi um 1.000 börn á landinu öllu ekki fengið leikskólapláss á ári hverju. Afleiðingin sé sú að foreldrar þurfi annað hvort að fara af vinnumarkaði eða treysta á vini og fjölskyldu til að harka af sér biðina. Í úttekt Viðskiptablaðsins í janúar kom fram að meðalaldur við inntöku barna á borgarrekna leikskóla sé 19,5 mánuðir.

Skortur á viðhaldi og fjárfestingum stór hluti vandans

Auk þessa er m.a. rætt við Sabine Leskopf, borgarfulltrúa Samfylkingar, sem situr í skóla- og frístundaráði Reykjavíkubrogar og haft eftir henni að stærsta vandamálið sé bæði skortur á viðhaldi og nýjum skólum. Allt frá fjármálahruni hafi þetta tvennt setið á hakanum.

Þá séu laun leikskólakennara helst til of lág. „Þú sækir þér fimm ára háskólanám til að verða leikskólakennari, en það er langur tími í samhengi við tiltölulega lág laun í stéttinni,“ segir Sabine í samtali við The Guardian.

Freyja Steingrímsdóttir, sem starfar fyrir BSRB, segir að lausnin felist í því að fjölga leikskólaplássum eða lengja fæðingarorlof. Freyja telur að rétt væri að tryggja öllum börnum 12 mánaða og eldri lögbundinn rétt til dagvistunar því öðruvísi muni nægt fjármagn ekki renna til málaflokksins.

The Guardian greinir frá.