Play boðaði í síðustu viku grundvallarbreytingu á viðskiptalíkani sínu frá og með miðju næsta ári. Breytingin felur í sér að áfangastöðum í Norður-Ameríku og Norður-Evrópu verður fækkað. Á hinn bóginn verði áætlun félagsins til Suður-Evrópu efld.
Í tilkynningu flugfélagsins er bent á að bein flug til áfangastaða félagsins í Suður-Evrópu hafi verið arðbær frá upphafi. Aftur á móti hafi afkoma félagsins af tengiflugi yfir Atlantshafið valdið vonbrigðum, sérstaklega á yfirstandandi ári.
Eftir tilkynningu Play til Kauphallarinnar síðastliðinn miðvikudag lækkaði hlutabréfaverð félagsins um helming á næstu tveimur viðskiptadögum.
Dagslokagengi Play stóð í 1,92 krónum miðvikudaginn 16. október, en sama dag tilkynnti félagið um breytingar á viðskiptalíkani sínu. Föstudaginn 18. október var dagslokagengið komið niður í 1,04 krónur. Gengið stendur nú í 0,99 krónum.
„Bréf í flugfélögum hækka og lækka vanalega eftir því hvort fréttir eru góðar eða slæmar. Oft bregst markaðurinn of neikvætt við, þar til betri skilningur næst á stöðunni eða þegar félagið hefur gefið upp frekari upplýsingar,“ segir Hans Jørgen Elnæs, norskur fluggreinandi og ráðgjafi á flugmarkaði.
Að hans mati sé hlutabréfaverðið ekki endilega mikilvægasti mælikvarðinn á árangur Play, heldur séu lausafjárstaða og nýja viðskiptalíkanið mikilvægari þættir til að fylgjast með.
Ný tækifæri en nýr kostnaður
Meðfram nýju viðskiptalíkani hefur Play hafið umsóknarferli um flugrekstrarleyfi á Möltu til að greiða fyrir fjölbreyttari starfsemi á vegum félagsins. Reiknar félagið með því að nýja flugrekstrarleyfið verði í höfn næsta vor. Þannig er stefnt að því að fyrsta vél Play sem færð verður yfir á nýtt flugrekstrarleyfi verði staðsett á Tenerife og muni þaðan meðal annars fljúga til Keflavíkur og Akureyrar.
Eftir breytingarnar verða um sex til sjö vélar staðsettar á Íslandi á íslenska flugrekstrarleyfinu og þrjár til fjórar erlendis, en í dag telur flugfloti félagsins tíu vélar.
Hans segir þetta geta opnað á ný tækifæri fyrir Play. Það fylgi því þó einnig kostnaður.
„Að setja upp nýtt flugrekstrarleyfi fylgir kostnaður. Á hinn bóginn getur Play ráðið starfsfólk á lægri launum í starfsemi sinni í Suður-Evrópu, samanborið við á Íslandi. Það er of snemmt að segja til um hvort þetta skref auki arðsemi félagsins. Slíkt leyfi getur a.m.k. opnað á möguleikann fyrir Play að fljúga á milli evrópskra borga, eins og Norwegian er að prófa um þessar mundir.“
Nánar er fjallað um Play í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta lesið blaðið hér og fréttina í heild hér.