Einkavæðingarráðuneyti Pakistan hefur sett ríkisflugfélagið Pakistan International Airlines í söluferli en fjárfestar hafa mánuð til að skila inn tilboðum. Til boða standa allt frá 51% til 100% hlutabréfa í flugfélaginu og er vænst til þess að komist verði að samkomulagi um kaup í júní.

Skuldir félagsins, sem nema um þremur milljörðum dala, munu þó ekki færast yfir á kaupendur þar sem þær hafa verið færðar í annað félag. Tap hefur verið á rekstri flugfélagsins undanfarin ár en að því er segir í frétt Bloomberg telur forsætisráðherra Pakistan ekki réttlætanlegt að ríkið komi félaginu til bjargar lengur.

Tilraunir hafa áður verið gerðar til að selja hlut í flugfélaginu en andstaða ákveðinna pólitíkusa og verkalýðsfélaga hefur komið í veg fyrir það.