Golfskálinn, eitt þekktasta fyrirtæki landsins á sviði golfferða og golfbúnaðar, hefur nú gengið í hendur nýrra eigenda. Það er Stamina leitarsjóður sem stendur að kaupunum en sjóðurinn var stofnaður af Kára Steini Karlssyni með það að markmiði að finna öflugt rekstrarfélag og leiða það áfram í gegnum vöxt og umbreytingu. Eignarhald félagsins er nú í höndum Kára Steins og hóps fjárfesta í gegnum Stamina en Kári tekur jafnframt við sem framkvæmdastjóri.
Seljendur eru stofnendur Golfskálans, Ingibergur Jóhannsson og Hans Henttinen. Ingibergur hefur leitt ferðaþjónustuhluta starfseminnar á meðan Hans hefur séð um rekstur verslunar og daglega stjórn fyrirtækisins. Hans verður nýjum eigendum innan handar næstu vikurnar og Ingibergur verður þeim innan handar út árið og hugsanlega lengur.
Kári kemur inn með öflugan rekstrargrunn og víðtæka reynslu úr fyrirtækjaráðgjöf og fjármálum en hann starfaði síðast sem fjármálastjóri hjá 66°Norður. Þá hefur Kári sömuleiðis sterkan íþróttabakgrunn en úr ólíkri átt þar sem hann var keppnismaður í langhlaupum til margra ára. Hann keppti meðal annars fyrir hönd Íslands á Evrópu- og heimsmeistaramótum, sem og á Ólympíuleikunum í Lundúnum árið 2012.
„Golfskálinn er spennandi fyrirtæki með sterkar stoðir – annars vegar í verslun með golfvörur og hins vegar í vinsælum golfferðum til Spánar. Við sjáum mikil tækifæri til að efla þessa starfsemi enn frekar og byggja á því góða starfi sem Hans og Ingibergur hafa leitt með mikilli elju síðustu fimmtán árin,“ segir Kári Steinn.
„Við munum leggja áherslu á framúrskarandi þjónustu og ráðgjöf, öflugt og vandað vöruframboð og áframhaldandi góð tengsl við kylfinga og samstarfsaðila um allt land,“ bætir hann við.
Að baki Stamina leitarsjóði er öflug stjórn og hluthafar með víðtæka reynslu úr viðskiptalífi og fjárfestingum – en einnig margir hverjir með djúpar rætur í golfheiminum. Stjórn og hluthafar sameina þannig bæði faglega innsýn og ástríðu fyrir íþróttinni. Nýr stjórnarformaður Golfskálans verður Gunnar Sigurðsson, sem hefur víðtæka reynslu úr íslensku viðskiptalífi, m.a. frá Baugi og Kviku banka, og var sjálfur keppnismaður í golfi á yngri árum.
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.