Reginn fasteignafélag hefur ákveðið að framlengja gildistíma valfrjáls tilboðs í allt hlutafé Eikar um fjórar vikur og gildir yfirtökutilboðið því til 16‏. október. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands samþykkti í dag beiðni Regins um að framlengja gildistíma tilboðsins.

„Umrædd framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins kemur til í ljósi þess að félagið telur líkur á því að rannsókn Samkeppniseftirlitsins á fyrirhuguðum viðskiptum verði ekki lokið þegar upphaflegur gildistími tilboðsins rennur út þann 18. september nk.,“ segir í tilkynningu Regins til Kauphallarinnar.

Reginn segist hafa átt í samskiptum við Samkeppniseftirlitið í tilefni af valfrjálsa tilboðinu sem tók gildi 10. júlí. Samrunatilkynning vegna tilboðsins sé nú til meðferðar hjá Samkeppniseftirlitinu.

Reginn tekur fram í tilkynningunni að framlenging á gildistíma valfrjálsa tilboðsins hafi engin áhrif á þá sem þegar hafa samþykkt tilboðið og þurfa þeir hluthafar Eikar sem þegar hafa samþykkt tilboðið ekki að aðhafast neitt.

Væntir breiðari sáttar um tilboðið

Í byrjun júlí 4. júlí samþykkti hluthafafundur Regins mótatkvæðalaust heimild til stjórnar til hækkunar hlutafjár til að efna uppgjör á valfrjálsu yfirtökutilboði í Eik. Gildistími valfrjálsa yfirtökutilboðsins var til 18. september 2023.

„Í fyrri tilkynningum hefur komið fram að meirihluti hluthafa Eikar hefur þegar lýst yfir stuðningi við áformin á grundvelli markaðsþreifinga. Í kjölfarið hefur samtal átt sér stað við tiltekna hluthafa Eikar til að kynna áformin nánar og hlusta eftir sjónarmiðum um þær stefnuáherslur sem Reginn hefur kynnt í tengslum við tilboðið,“ segir Halldór Benjamín Þorbergsson, forstjóri Regins í uppgjörstilkynningu í kvöld.

„Við væntum þess að með ítarlegri kynningu á uppgjöri Regins og nánari stefnuáherslum sameinaðs félags náist breið sátt um tilboðið meðal hluthafa Eikar.“

Hluthafafundur hjá Eik 15‏. september

Stjórn Regins tilkynnti þann 8. júní sl. að hún hefði ákveðið að leggja fram valfrjálst yfirtökutilboð í allt hlutafé Eikar. Verði tilboðið samþykkt munu hluthafar Eikar fá 46% útgefins hlutafjár í Regin.

Alls er óljóst hvort tilboð Regins verði samþykkt en Gunnar Þór Gíslason, forsvarsmaður Brimgarða, stærsta hluthafa Eikar með um 29% hlut, lýsti því yfir í fjölmiðlum í júní að fjárfestingarfélagið myndi ekki samþykkja tilboðið.

Nokkrum dögum síðar var tilkynnt um að stjórnir Reita og Eikar hefðu ákveðið að hefja viðræður um mögulegan samruna. „Nýlegir atburðir stuðluðu að því að stjórn Eikar kannaði hvort grundvöllur væri fyrir viðræðum við stjórn Reita um mögulegan samruna sem væri hluthöfum hagfelldari en fyrirhugað yfirtökutilboð,“ segir í Kauphallartilkynningu sem Eik sendi frá sér í lok júní.

Reginn ákvað að halda sínu striki og leggja fram yfirtökutilboðið líkt og fasteignafélagið hafði lýst yfir.

Í hálfsársuppgjöri Reita kemur fram að vænta megi frekari frétta af samrunaviðræðunum við stjórn Eikar í fyrri hluta septembermánaðar.

Í lok síðustu viku boðaði stjórn Eikar til hluthafafundar þann 15. september næstkomandi. Á fundinum fer fram kynning á greinargerð stjórnar Eikar vegna tilboðs Regins. Jafnframt verður rætt um samrunaviðræðurnar við Reiti.