Ásta S. Fjeldsted, forstjóri Festi, bendir á að margar spennandi heilbrigðislausnir hafi orðið til hjá frumkvöðlum og fyrirtækjum hér á landi sem hjálpi til við að létta undir með og/eða styrkja opinbera heilbrigðiskerfið. Apótek eru oft á tíðum fyrsta stopp í dag og sér Lyfja, sem er hluti af Festi samstæðunni, mikil tækifæri til að stíga enn fastar inn á því stigi og styðja þannig við heilbrigðiskerfið.
„Við sjáum gríðarlega mikil tækifæri í því að apótekin og þeir færu sérfræðingar sem í þeim starfa taki að sér stærra hlutverk. Það liggur í augum uppi að það er hægt að nýta krafta heilbrigðismenntaðs fagfólks eins og lyfjafræðinga betur m.a. í ráðgjöf og faglegum stuðningi við viðskiptavini, til að hámarka árangur lyfjameðferða, bæta meðferðarheldni, draga úr lyfjatengdum vandamálum og auka öryggi sjúklinga. Þetta er einmitt viðfangsefni starfshóps á vegum heilbrigðisráðuneytis sem leggur til markviss skref á næstu árum í þessa átt,“ nefnir Ásta sem dæmi um mikla grósku sem er í gangi við þróun og stefnumótun heilbrigðisþjónustu.
„Lyfja er á flottri vegferð með skýra framtíðarsýn og hefur stigið mun stærri skref í þessa átt en margir átta sig á. Auk lyfjafræðinga starfa meðal annars hjúkrunarfræðingar, lyfjatæknar og sjúkraliðar hjá félaginu sem veita viðskiptavinum fjölbreytta þjónustu og ráðgjöf. Þannig er almenningi veitt aðgengi að fagfólki utan heilsugæslu og sjúkrastofnana sem um leið styttir biðtíma innan þeirra.“
Ásta nefnir bólusetningar, saumatökur, sáraumbúðaskipti og heilsufarsmælingar sem dæmi um nokkrar tegundir þjónustu sem Lyfja býður nú þegar upp á.
„Auk þess hefur Lyfja sett á fót Lyfju Heyrn í Lágmúlanum sem býður fólki auðvelt aðgengi að heyrnarfræðingi, auk þess að fá að máta og prófa heyrnartæki ásamt faglegri ráðgjöf um heyrnarheilsu og ítarlegar mælingar. Lyfja Heyrn fer reglulega út á landsbyggðina í önnur apótek Lyfju þar sem boðið er upp á einfalda heyrnarmælingu. Þessi þjónusta hefur slegið í gegn og auðveldað líf margra, ungra sem aldraðra.“
Hún leggur áherslu á að hún sé ekki talskona þess að einkaaðilar taki yfir alla heilbrigðisþjónustu. Heldur megi nýta einkaframtakið til að létta undir með opinbera kerfinu, með því að taka að sér einföld tilfelli sem þarfnast ekki læknisskoðunar. „Svo þegar tilfellin eru flóknari, taka opinbera heilbrigðiskerfið og stofur sérfræðilækna við.“
Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.