Nýtt frumvarp frá danska fjármálaráðherranum Rasmus Stoklund mun gera fyrirtækjum í Danmörku mun auðveldara að umbuna starfsmönnum með hlutabréfum eða kauprétti án þess að þeir lendi í óvæntum skattkröfum.
Sérfræðingar sem Børsen ræddi við segja að breytingarnar séu „gríðarleg framför“ og muni bæði draga úr skattbyrði starfsmanna og minnka skrifræði fyrir fyrirtækin.
„Þetta er einfaldlega frábært. Ég get varla beðið eftir að þetta taki gildi,“ segir Henning Boye Hansen, skattekspert hjá BDO, í samtali við Børsen.
Hingað til hefur verið algengt að starfsmenn hafi verið skattlagðir strax þegar þeir nýttu kauprétti sína, jafnvel þó að hlutabréfin hefðu ekki verið seld eða hefðu fallið í verði síðar.
Það hefur leitt til þess að sumir hafa setið uppi með háar skattkröfur án þess að fá raunverulegan hagnað í hendur.
Ditte Buch Andrsen, fyrrverandi starfsmaður danska frumkvöðlafyrirtækisins Vivino, nýtti kauprétt sem hún hafði öðlast á starfstíma sínum og reiknaði hún ekki með því að greiða meira en hálfa milljón danskra króna í skatt án þess að hafa hagnast á hlutabréfunum.
Árið 2022 ákvað hún að nýta rétt sinn til að kaupa hlutabréf í Vivino á hagstæðu verði, fyrir 80.000 danskar krónur. Á þeim tíma var markaðsvirði hlutabréfanna metið á 916.000 danskar krónur.
Hún leitaði áður ráðgjafar hjá skat.dk, þar sem henni var sagt að skattur ætti ekki að falla til nema hún fengi greiðslu í reiðufé. Hún taldi því málið í fullkomnu lagi.
Þetta gerðist meðal annars í frægu tilfelli í Danmörku, sem Viðskiptablaðið fjallaði um á sínum tíma.
Ári síðar, þegar hún opnaði yfirlitið sitt hjá dönskum skattyfirvöldum, beið hennar óvæntur reikningur upp á 533.000 danskar krónur í tekjuskatt. Samsvarar það um tíu milljónum íslenskra króna.
Nýju reglurnar eiga að koma í veg fyrir slík tilfelli með því að heimila skattlagningu fyrst þegar hlutabréfin eru seld, en ekki þegar kaupréttur er nýttur.
Meira svigrúm fyrir sprotafyrirtæki
Meginbreytingarnar fela í sér að miklu fleiri fyrirtæki geta nú nýtt sér vægari skattareglur samkvæmt svokallaðri 7P-grein skattalaganna.
- Hámarksaldur fyrirtækis sem getur nýtt reglurnar hækkar úr 5 árum í 10 ár.
- Hámarksfjöldi starfsmanna sem geta tekið þátt hækkar úr 50 í 150.
- Hámarksvelta hækkar úr 15 milljónum í 200 milljónir króna.
Ekki þarf lengur að leggja fram markaðsverðmat á hlutabréfum við úthlutunina.
Eldri reglurnar verða þó áfram í notkun
Sum fyrirtæki munu halda áfram að nota eldri reglur samkvæmt 28. grein skattalaganna, meðal annars vegna þess að þar er heimilt að draga kostnað vegna hlutabréfaúthlutunar frá fyrirtækjaskatti.
Því má búast við að stærri fyrirtæki og alþjóðlegar samsteypur haldi sig að hluta við þá leið, þrátt fyrir aukna áhættu fyrir starfsmenn.
Thomas Black-Petersen, framkvæmdastjóri samtaka skráðra fyrirtækja (FBV), segir þó að nýju reglurnar muni gera lífið auðveldara fyrir langflest fyrirtæki:
„Í dag eru 50% fyrirtækja með starfsmenn í 7P-skjólinu, en ég geri ráð fyrir að það hlutfall fari upp í 75% þegar breytingarnar taka gildi.“