Lífeyrissjóðum verður gert kleift að fjárfesta í mun meira mæli í leigufélögum en áður samkvæmt nýboðuðu lagafrumvarpi fjármálaráðuneytisins sem kynnt var á Samráðsgátt stjórnvalda síðdegis í dag. Breytingin er sögð munu stuðla að auknu framboði á leigumarkaði og draga með því úr hækkunum fasteignaverðs.
Fátt er um fína drætti í skjalinu enda aðeins um stutta kynningu á áformum um lagasetningu að ræða, en markmið hennar eru meðal annars sögð vera „að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til langtímaleigu til einstaklinga með því að rýmka heimildir sjóðanna til fjárfestinga í leigufélögum.“
Í því skyni skuli fjárfestingar í „afmörkuðum óskráðum fjármálagerningum“ heimilaðar, séu þeir útgefnir af „fyrirtækjum með það meginmarkmiðið að fjárfesta í íbúðarhúsnæði sem ætlað er til langtímaleigu til einstaklinga til fastrar búsetu.“
Margir hafa lengi talað fyrir breytingu sem þessari og aukinni þátttöku lífeyrissjóðanna á leigumarkaði og hafa margir þeirra átt í viðræðum þess efnis nýverið. Í fyrrasumar var greint frá viðræðum þeirra um stofnun leigufélags í rekstri Summu sjóðastýringafélags, og í haust var tilkynnt um að ónefndur hópur lífeyrissjóða hygðist kaupa leigufélagið Heimstaden af norsku móðurfélagi sínu, en þær viðræður standa enn yfir.
Prýðileg ávöxtun með hliðsjón af áhættu
„Í mínum huga er engin spurning um að þetta yrði til verulegra bóta fyrir íslenskt samfélag enda lífeyrissjóðir fyrirferðamiklir á leigumarkaði í nær öllum þeim löndum sem við berum okkur saman við,“ fullyrðir Jón Finnbogason, framkvæmdastjóri Stefnis, og útskýrir að langtímaútleiga íbúðarhúsnæðis falli á margan hátt einstaklega vel að starfsemi og markmiðum lífeyrissjóða.
„Þetta er kannski ekki arðbærasti eignaflokkur sem völ er á en með hliðsjón af áhættu skilar hann prýðilegri ávöxtun,“ segir hann, en vandinn hafi einmitt verið sá að samkvæmt lögbundnum fjárfestingaheimildum hafi hlutabréf í leigufélögum hingað til flokkast eins og hver önnur hlutabréf þrátt fyrir að um mun stöðugri og áhættuminni rekstur í eðli sínu sé að ræða.
Til að lesa meira
Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.
Verð frá 5.995 kr. á mánuði