Nanna Kristín Tryggvadóttir hefur tekið sér ýmislegt fyrir hendur á starfsferlinum þótt vinnustaðirnir hafi ekki verið svo margir.

Hún þrífst best í krefjandi og síbreytilegu umhverfi, þar sem hún er ekki nógu vön til að vera örugg með sig heldur þarf að halda sér á tánum, en vill þó vera nógu lengi í hverju hlutverki til að finna að hún sé að gera eitthvað gagn og sjá afrakstur erfiðis síns.

Nanna vann sumarstörf hjá Landsbankanum meðfram háskólanámi og fór svo þangað í fullt starf þegar hún lauk meistaragráðu frá Duke-háskóla í Bandaríkjunum. Árið 2017 var hún gerð að aðstoðarmanni bankastjóra, en hætti svo hjá bankanum í fyrra og færði sig yfir í verktakageirann.

„Það varð svo lengsta fasta starfið á mínum tólf árum hjá bankanum, en þar var þó enginn dagur eins. Það átti vel við mig því ég þrífst best í þannig umhverfi. Um leið og hlutirnir fara að verða þægilegir fer mér að líða hálf óþægilega og vil fara að breyta til, þægindaramminn hentar mér ekki vel“ segir Nanna og hlær.

Nánar er rætt við Nönnu Kristínu í Viðskiptablaði síðustu viku.