SORPA bs. og ÝMIR technologies ehf. hafa gert með sér samkomulag um tilfærslu og gangsetningu á vinnslulínu ÝMIS til meðhöndlunar úrgangs frá dýraslátrun við GAJU í Álfsnesi. Búnaðinum er ætlað að leysa af hólmi urðun þessa vandmeðfarna úrgangsflokks og nýta þess í stað þau verðmæti sem í honum felast. Urðun lífræns úrgangs hefur í för með sér margvísleg neikvæð umhverfisáhrif, til dæmis mikla losun metangass, sem er 25 sinnum skaðlegri gróðurhúsaloftegund en koltvísýringur.

SORPA hefur um árabil unnið skipulega að því að draga úr urðun. Byggðasamlagið steig stórt skref í þeim efnum á síðasta ári, þegar GAJA var tekin í notkun. GAJA er eitt stærsta einstaka loftslagsverkefni sem ráðist hefur verið í á höfuðborgarsvæðinu frá því að heitt vatn var lagt í hús. Með vinnslu hennar á lífrænum úrgangi og því að hætta að urða úrgang er dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda um tugi þúsunda tonna á hverju ári.

„Við dýraslátrun fellur til mikið magn úrgangsfitu sem ekki nýtist til manneldis eða sem fóður, en nýta má til framleiðslu á sjálfbæru samgöngueldsneyti. Ætla má að árlegt aðstreymi dýraleifa til ráðstöfunar hjá SORPU haldist svipað og verið hefur á næstu árum, en úr því hráefni, að viðbættri t.d. notaðri steikingarolíu sem Terra safnar, má framleiða á ársgrundvelli allt að milljón lítra af lífdísileldsneyti til íblöndunar á venjulega dísilbíla. Til þess að setja í samhengi þann sparnað í losun gróðurhúsalofttegunda sem þarna næst þá jafnast hann á við að skipta út 1.500 bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Öll fjárfestingin í vinnslu sláturúrgangsfitunnar, auk framleiðslu og dreifingu lífdísils úr henni nemur aðeins brotabroti af þeim kostnaði sem hlytist af að skipta þeim bílum út fyrir til dæmis rafbíla. Sú fjárfesting kemur öll til baka og gott betur, þó miðað sé við hóflegar forsendur um söluverð sjálfbæra eldsneytisins," segir Sigurður Ingólfsson framkvæmdastjóri ÝMIR technologies um samstarfið.

Afgerandi skref í að hætta að urða

Jón Viggó Gunnarsson, framkvæmdastjóri SORPU, fagnar samstarfinu og leggur áherslu á gott samstarf við nýsköpunarfyrirtæki eins og Ýmir Technologies. „SORPA er að ganga í gegnum mikla umbreytingu. Eigendur SORPU hafa ákveðið að hætta urðun og horfa á úrgangsstrauma sem verðmæti sem á að koma aftur inn í hringrásarhagkerfið eftir því sem kostur er. Mikilvægur liður í að ná þessu markmiði SORPU eru rannsóknar- og þróunarsamvinna við þekkingarfyrirtæki eins og Ýmir technologies sem koma með tækninýjungar sem nýtast við minnka magn úrgangs sem fer í urðun. Samstarfið við Ýmir technologies hefur verið árangursríkt og mikilvægt fyrir SORPU. Nýsköpun og rannsóknir í umhverfis- og sjálfbærnimálum í samvinnu við íslenskt atvinnulíf er hluti af markmiðum SORPU og SORPA sækist sífellt eftir auknu samstarfi við aðila á markaði."

Framkvæmdastjórar fyrirtækjanna, Jón Viggó Gunnarsson og Sigurður Ingólfsson, undirrituðu samkomulagið í húsakynnum Eyris sprota, eins af aðaleigendum ÝMIS, að viðstöddum stjórnarformanni SORPU, Líf Magneudóttur, fulltrúum Eyris sprota, SORPU og stjórnarmönnum ÝMIS.