Líf­eyris­sjóðir eru farnir að kanna mögu­leikann á að fjár­festa í Bitcoin, sem gefur til kynna að jafn­vel varfærnustu geirar fjár­mála­kerfisins eigi erfitt með að horfa fram hjá mögu­leikanum á um­tals­verðri ávöxtun úr raf­myntum.

Sam­kvæmt Financial Times eru líf­eyris­sjóðir ríkis­starfs­manna Wisconsin og Michigan í Bandaríkjunum orðnir meðal stærstu eig­enda bandarískra verðbréfa­sjóða sem sér­hæfa sig í raf­myntum.

Jafn­framt hafa sumir sjóð­stjórar í Bret­landi og Ástralíu á síðustu mánuðum ráð­stafað litlum hluta í Bitcoin, annaðhvort í gegnum sjóði eða af­leiður.

Sér­fræðingar segja að mikill vöxtur í Bitcoin á síðasta ári, þegar verð þess meira en tvöfaldaðist og 1 mynt fór í 100.000 dali, hafi vakið áhuga íhalds­samra sjóð­stjóra.

Raf­myntasér­fræðingar spá því að Bitcoin gæti tvöfaldast á þessu ári þar sem Donald Trump Bandaríkja­for­seti er mun hliðhollari raf­myntum en for­veri sinn.

Trump hefur lýst því yfir að hann ætli sér að gera Bandaríkin að „bitcoin-ofur­veldi heimsins“ og binda enda á reglu­gerðar­hertöku í geiranum.

„Frá því á kjör­dag höfum við fengið mikið af fyrir­spurnum. Sjóð­stjórum líkar illa við að vita af heitu fjár­festingar­sviði sem þeir hafa enga þekkingu á,“ segir Matt Scott, ráðgjafi hjá Mercer, sem veitir breskum líf­eyris­sjóðum ráðgjöf.

Flestir líf­eyris­sjóðir hafa snúið sér að skráðum bandarískum verðbréfa­sjóðum, sem voru samþykktir á síðasta ári og fjár­festa beint í raf­myntum fyrir hönd fjár­festa og fylgjast með verði Bitcoin og Et­hereum.

Líf­eyris­sjóður Wisconsin var 12. stærsti hlut­hafinn í Bitcoin-sjóði BlackRock í lok septem­ber, sam­kvæmt nýjustu skýrslum. Eignin væri nú metin á um 155 milljónir dollara eftir að sjóðurinn hefur hækkað um 50% frá upp­hafi fjórðungsins.

Michigan-ríki er sjötti stærsti hlut­hafi Et­hereum-sjóðs Grays­ca­le, og hluta­bréfa­eign þess er metin á 12,9 milljónir dollara sam­kvæmt skráningu frá nóvember. Sjóðurinn er einnig 11. stærsti eig­andi ARK 21Shares Bitcoin-sjóðsins, sem Cathie Wood stýrir, og hefur hækkað um 14% síðan í kosningunum.

Fjár­festing líf­eyris­sjóða í raf­myntum er þó ekki ný af nálinni en þó nokkrir fóru illa úr raf­mynta­kreppunni fyrir tveimur árum.

Líf­eyris­sjóður kennara í Ontario, Kanada, tapaði 95 milljónum dollara í fjár­festingu í FTX, sem fór á hausinn árið 2022. Líf­eyris­sjóðurinn Cais­se de dépôt et placement du Québec viður­kenndi einnig að hafa farið of fljótt inn á raf­mynta­markað þegar hann tapaði 150 milljónum dollara í lána­palli Celsius Network.

„Það er enginn vafi á því að mót­vindurinn er að minnka. Ég held að við munum sjá fleiri stofnana­fjár­festa fara í raf­myntir,“ segir Alex Pollak, yfir­maður hjá 21Shares, sem fram­leiðir verðbréfa­tengd raf­mynta­fjár­festingar­tæki.