Lífeyrissjóðir eru farnir að kanna möguleikann á að fjárfesta í Bitcoin, sem gefur til kynna að jafnvel varfærnustu geirar fjármálakerfisins eigi erfitt með að horfa fram hjá möguleikanum á umtalsverðri ávöxtun úr rafmyntum.
Samkvæmt Financial Times eru lífeyrissjóðir ríkisstarfsmanna Wisconsin og Michigan í Bandaríkjunum orðnir meðal stærstu eigenda bandarískra verðbréfasjóða sem sérhæfa sig í rafmyntum.
Jafnframt hafa sumir sjóðstjórar í Bretlandi og Ástralíu á síðustu mánuðum ráðstafað litlum hluta í Bitcoin, annaðhvort í gegnum sjóði eða afleiður.
Sérfræðingar segja að mikill vöxtur í Bitcoin á síðasta ári, þegar verð þess meira en tvöfaldaðist og 1 mynt fór í 100.000 dali, hafi vakið áhuga íhaldssamra sjóðstjóra.
Rafmyntasérfræðingar spá því að Bitcoin gæti tvöfaldast á þessu ári þar sem Donald Trump Bandaríkjaforseti er mun hliðhollari rafmyntum en forveri sinn.
Trump hefur lýst því yfir að hann ætli sér að gera Bandaríkin að „bitcoin-ofurveldi heimsins“ og binda enda á reglugerðarhertöku í geiranum.
„Frá því á kjördag höfum við fengið mikið af fyrirspurnum. Sjóðstjórum líkar illa við að vita af heitu fjárfestingarsviði sem þeir hafa enga þekkingu á,“ segir Matt Scott, ráðgjafi hjá Mercer, sem veitir breskum lífeyrissjóðum ráðgjöf.
Flestir lífeyrissjóðir hafa snúið sér að skráðum bandarískum verðbréfasjóðum, sem voru samþykktir á síðasta ári og fjárfesta beint í rafmyntum fyrir hönd fjárfesta og fylgjast með verði Bitcoin og Ethereum.
Lífeyrissjóður Wisconsin var 12. stærsti hluthafinn í Bitcoin-sjóði BlackRock í lok september, samkvæmt nýjustu skýrslum. Eignin væri nú metin á um 155 milljónir dollara eftir að sjóðurinn hefur hækkað um 50% frá upphafi fjórðungsins.
Michigan-ríki er sjötti stærsti hluthafi Ethereum-sjóðs Grayscale, og hlutabréfaeign þess er metin á 12,9 milljónir dollara samkvæmt skráningu frá nóvember. Sjóðurinn er einnig 11. stærsti eigandi ARK 21Shares Bitcoin-sjóðsins, sem Cathie Wood stýrir, og hefur hækkað um 14% síðan í kosningunum.
Fjárfesting lífeyrissjóða í rafmyntum er þó ekki ný af nálinni en þó nokkrir fóru illa úr rafmyntakreppunni fyrir tveimur árum.
Lífeyrissjóður kennara í Ontario, Kanada, tapaði 95 milljónum dollara í fjárfestingu í FTX, sem fór á hausinn árið 2022. Lífeyrissjóðurinn Caisse de dépôt et placement du Québec viðurkenndi einnig að hafa farið of fljótt inn á rafmyntamarkað þegar hann tapaði 150 milljónum dollara í lánapalli Celsius Network.
„Það er enginn vafi á því að mótvindurinn er að minnka. Ég held að við munum sjá fleiri stofnanafjárfesta fara í rafmyntir,“ segir Alex Pollak, yfirmaður hjá 21Shares, sem framleiðir verðbréfatengd rafmyntafjárfestingartæki.