Ríkisstjórnin hefur kynnt aðgerðir í tengslum við gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Aðgerðirnar eru sagðar einkum snúa að stuðningi við lífskjör lág- og millitekjufólks, m.a. á húsnæðismarkaði.

„Áhersla er lögð á fjölgun íbúða og uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu með auknum stofnframlögum, endurbótum í húsnæðisstuðningi og bætta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda,“ segir í tilkynningu ríkisstjórnarinnar.

Meðal aðgerða sem ríkisstjórnin mun leggja fyrir Alþingi er 13,8% hækkun húsnæðisbóta leigjenda í upphafi næsta árs og 7,4% hækkun tekjuskerðingarmarka húsnæðisbóta. Þá hækka eignaskerðingamörk í vaxtabótakerfinu um 50% í upphafi næsta árs.

Ríkisstjórnin hyggst skoða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum. Ekki kemur fram í tilkynningunni með hvaða hætti það verður útfært.

Lögð verður áhersla á uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu. Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða í almenna íbúðakerfinu verða 4 milljarðar króna á árinu 2023.

Þá verður barnabótakerfið breytt þannig að fleiri fjölskyldur fái barnabætur. Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í óbreyttu kerfi á næstu tveimur árum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra frá fundinum í dag.
© Eyþór Árnason (Eyþór Árnason)

Fyrirhugaðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar:

Ríkisstjórnin mun leggja fyrir Alþingi eða beita sér að öðru leyti fyrir eftirfarandi aðgerðum. Textinn er tekinn beint úr yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar.

Fjölgun nýrra íbúða:

  • Með rammasamkomulagi ríkis og sveitarfélaga til næstu 10 ára er sett fram sameiginleg sýn um uppbyggingu íbúða til að mæta íbúðaþörf ólíkra hópa samfélagsins og stuðla að auknum stöðugleika á húsnæðismarkaði. Áætlað er að byggja þurfi 35 þúsund íbúðir á næstu 10 árum. Það er sameiginleg sýn ríkis og sveitarfélaga að 30% nýrra íbúða verði hagkvæmar á viðráðanlegu verði og 5% félagslegar. Stjórnvöld munu í samningum við einstök sveitarfélög á grundvelli rammasamningsins hafa að markmiði að auka lóðaframboð ásamt því að veita nauðsynlegan fjárstuðning til að tryggja íbúðauppbyggingu.

Fjölgun almennra íbúða:

  • Áfram verður unnið að öflugri uppbyggingu í almenna íbúðakerfinu sem er mikilvægur liður í að tryggja húsnæðisöryggi tekjulægri heimila.
  • Stofnframlög ríkisins til að auka framboð íbúða á viðráðanlegu verði í almenna íbúðakerfinu verða samtals 4 milljarðar á árinu 2023.

Betri húsnæðisstuðningur:

  • Húsnæðisbætur til leigjenda hækka um 13,8% í upphafi árs 2023 til samræmis við þróun verðlags undanfarin ár. Þá hækka tekjuskerðingarmörk húsnæðisbóta um 7,4% frá sama tíma.
  • Eignaskerðingarmörk í vaxtabótakerfinu hækka um 50% í upphafi árs 2023.
  • Almenn heimild til nýtingar á séreignarsparnaði til kaupa á íbúðarhúsnæði til eigin nota eða ráðstöfunar inn á höfuðstól verði framlengd til ársloka 2024.
  • Á samningstímanum verði fyrirkomulag sérstaks húsnæðisstuðnings og húsnæðisbóta til leigjenda tekið til skoðunar með það að markmiði að tryggja jafnræði og einfalda kerfið fyrir leigjendur. Þessi skoðun verði gerð í samstarfi ríkis og sveitarfélaga.

Bætt réttarstaða og húsnæðisöryggi leigjenda:

  • Aðilar vinnumarkaðarins fá aðkomu að starfshópi innviðaráðherra sem vinnur að endurskoðun húsaleigulaga til að bæta réttarstöðu og húsnæðisöryggi leigjenda.

Barnabætur:

  • Barnabótakerfið verður einfaldað, stuðningur við barnafjölskyldur efldur, fjölskyldum sem njóta stuðnings fjölgað, dregið úr skerðingum, jaðarskattar af völdum barnabóta lækkaðir og skilvirkni og tímanleiki bótanna aukinn.
  • Teknar verða upp samtímagreiðslur barnabóta þannig að biðtími eftir barnabótum verði aldrei lengri en 4 mánuðir eftir fæðingu barns.
  • Heildarfjárhæð barnabóta verður 5 milljörðum hærri en í óbreyttu kerfi á næstu tveimur árum.

Önnur mál sem unnið verður að á samningstímanum:

  • Veittur verður 10 milljóna króna viðbótarstuðningur á árinu 2023 til að auka aðhald á neytendamarkaði.
  • Skoðaðar verða leiðir til að auðvelda lífeyrissjóðum að koma að uppbyggingu á íbúðarhúsnæði til útleigu með því að rýmka heimildir þeirra til fjárfestinga í leigufélögum í samráði fjármála- og efnahagsráðuneytis, innviðaráðuneytis, lífeyrissjóða, sveitarfélaga og aðila vinnumarkaðarins.
  • Mat verði lagt á greiðslur og hámarksfjárhæðir í Fæðingarorlofssjóði og Ábyrgðasjóði launa með það að markmiði að þær verði endurskoðaðar á árinu 2024. Þá munu stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins sameiginlega leggja mat á tekjuöflun og ráðstöfun tryggingagjaldsins með það að markmiði að tryggja langtímajafnvægi í fjármögnun þeirra réttinda sem það stendur undir í Ábyrgðasjóði launa, Fæðingarorlofssjóði, starfsendurhæfingarsjóði og Atvinnuleysistryggingasjóði.
  • Nefnd um heildarendurskoðun atvinnuleysistrygginga með aðkomu aðila vinnumarkaðarins ljúki vinnu sinni eigi síðar en í lok apríl 2023 og unnið verður að innleiðingu á umbótum á atvinnuleysistryggingakerfinu á samningstímanum í samræmi við tillögur nefndarinnar.
  • Málefni og fjármögnun vinnustaðanámssjóðs verði tekin til endurskoðunar í tengslum við gerð fjármálaáætlunar á árinu 2023 til að styðja við markmið um aukið vægi starfsnáms.