Breskir lífeyrissjóðir greiða 1,5 milljarði punda meira í þóknun til sjóðstjóra en þeir þurfa að gera samkvæmt nýrri greiningu ClearGlass en Financial Times greinir frá. Samsvarar það um 264 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt FT sýnir greiningin að sjóðsfélagar eigi að krefjast þess að stjórnir lífeyrissjóða sinna endursemji um kjör við eignastýringarfyrirtæki í Bretlandi.
Greiningarfyrirtækið ClearGlass segir að í sumum tilfellum séu gjöldin úr öllu valdi og eru dæmi um að lífeyrissjóðir séu að greiða 14 sinnum meira fyrir nákvæmlega sömu þjónustu en annað fyrirtæki myndi bjóða upp á.
„Það er verið að koma mjög illa fram við marga þarna,“ segir Chris Sier forstjóri ClearGlass í samtali við FT.
Hann segir verðbilið gríðarlegt og að fyrirtækin séu að bjóða lífeyrissjóðum mjög mismunandi verð.
„Niðurstaðan er sú að sumir viðskiptavinir eru hreinlega að niðurgreiða þjónustu fyrir aðra á betri kjörum.“
Meðal helstu niðurstaðna greiningarinnar er sú að sumir lífeyrissjóðir greiddu allt sex sinnum meira fyrir sjóð sem fylgir ríkisskuldabréfavísitölu heldur en lægsta markaðsverð fyrir sömu vöru.
Rannsókn greiningarfyrirtækisins náði til 688 lífeyrissjóða sem eru samanlagt með um 550 milljarða punda af eignum í stýringu, sem er um helmings markaðshlutdeild í Bretlandi.
Rannsóknin skoðaði þóknanir til 629 sjóðstjóra og fór yfir 38 þúsund fjárfestingaráætlanir.
Fjárfestingaráðgjafar sáu um að semja um kaup og kjör í flestum tilfellum fyrir sjóðina en þar sem mikið af gjöldunum voru ekki uppi á borðinu segir fyrirtækið að margir sjóðir hafi endað að greiða mun meira óafvitandi.