Munurinn á ávöxtunarkröfu verðtryggðra íslenskra ríkisskuldabréfa og svokallaðra TIPS bréfa, sem eru verðtryggð bandarísk ríkisskuldabréf, er lítill sem enginn um þessar mundir og er sú staða óvenjuleg í sögulegu samhengi.
Gunnar Örn Erlingsson, skuldabréfamiðlari hjá Arion banka, segir ávöxtunarkröfu TIPS bréfanna hafa hækkað samhliða hækkun nafnvaxtaferilsins í Bandaríkjunum, sem hafi síðan hækkað vegna væntinga um frekari vaxtahækkanir þar ytra. Verðbólguálag til fimm ára hafi aftur á móti haldist frekar stöðugt í kringum 3%. Á Íslandi hafi krafan haldist töluvert stöðugri á lengri enda raunvaxtaferilsins. „Ávöxtunarkrafa langra verðtryggðra ríkisskuldabréfa hefur verið nokkuð stöðug sem orsakast líklega af því að langtímafjárfestar, til að mynda lífeyrissjóðir, vilja síður selja verðtryggðar eignir frá sér.“
Munurinn á ávöxtunarkröfu þessara bréfa í Bandaríkjunum og á Íslandi hefur sögulega verið nokkuð mikill. Gunnar Örn segir áhættuálag eiga að vera á milli þessara landa enda sé íslenski skuldabréfamarkaðurinn mun grynnri en sá bandaríski. „Markaðurinn tekur einnig til að mynda mið af þróun vaxta, vinnumarkaðinum og gjaldmiðlamálum.“
Að sögn Gunnars er ávöxtunarkrafa þessara bréfa besti mælikvarðinn á verðbólguvæntingar til lengri tíma. Í báðum löndum séu markaðirnir lifandi og því megi lesa úr bréfunum að nokkur munur sé á væntingum markaðsaðila í Bandaríkjunum og á Íslandi. „Verðbólguálag til næstu fimm ára á Íslandi er 5,25%.“
Fréttinn er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.