Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur og fyrrverandi efnahagsráðgjafi ríkisstjórnarinnar, segir að styrking krónunnar undanfarið komi smá á óvart en erfitt sé að spá um framhaldið þar sem flest gögn taka tíma að berast.

„Krónan er að koma úr mjög sterkri stöðu og er að stefna í enn sterkari stöðu,” segir Konráð.

Hann segir að eitt af því sem hefur stutt við gengið, sem lítt er nefnt, er að lífeyrissjóðirnir hafa verið að fjárfesta minna erlendis en oft áður en mögulega hugnist þeim ágætlega hávaxtarumhverfið hérlendis.

Spurður um möguleikann á auknum vaxtamunaviðskiptum erlendra fjárfesta hérlendis segir Konráð að það þurfi að hafa í huga að þau ganga í báðar áttir.

„Vaxtamunurinn getur laðað að sér erlent fjármagn en það má velta því upp hvort innlendum aðilum og lífeyrissjóðum líði ekki bara mjög vel með þessa íslensku vexti. Þeir gera upp í krónum og þá er kannski ekki mikill hvati til að fara út. En samt má segja á sama tíma að það sé aldrei betra að fjárfesta erlendis og þegar gengið er svona sterkt,” segir Konráð.

„Við höfum áður verið með sambærilegan vaxtamun en gengið er mjög sterkt núna. Það er mögulegt að erlendir fjárfestar sjái sér leik á borði ef gengið veikist. Langtímafjárfestar horfa vissulega ekki endilega á gengissveiflur milli mánaða en þeir sem hugsa til skamms tíma munu kannski sjá sér leik á borði,“ segir Konráð.

Áframhaldandi styrking krónunnar er þó varhugaverð og bendir Konráð á að það sé töluvert síðan krónan hafi verið jafn sterk með sömu undirliggjandi þætti og eru í hagkerfinu núna.

„Það er allt sem bendir til þess að þetta sé eitthvað sem hagkerfið ráði ekki við til lengdar en engu að síður getur þessi staða varað í einhvern tíma.”

Konráð segir að þrátt fyrir að yfirlýst markmið Seðlabankans með gjaldeyriskaupum sé að auka gjaldeyrisforðann sé líklega einnig verið að huga að því að hægja á styrkingu krónunnar.

Að sögn Konráðs er gengið nú þegar byrjað að hafa áhrif á útflutningsfyrirtækin á Íslandi.

„Þau eru nú þegar með lakari afkomu og lakari samkeppnisstöðu þar sem þau búa við enn hærri kostnað en erlendir samkeppnisaðilar. Það hefur mögulega ekki mikil áhrif á reksturinn frá degi til dags en hefur áhrif á hvaða markaði er verið að sækja á og hvar sé verið að huga að hafa framtíðarstarfseminni og hvar skal stunda viðskipti.”

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun um verðbólgu­væntingar, krónuna og vaxta­muna­við­skipti í Viðskiptablaði vikunnar.