Stærstu breytingar í eignar­haldi á ís­lenskum skráðum félögum í mars 2025 sýna að líf­eyris­sjóðir voru í lykil­hlut­verki í mótun hlut­hafa­sam­setningar, með um­tals­verðum sölu- og kaupákvörðunum.

Þessar hreyfingar spegla bæði áherslu­breytingar í fjár­festingar­stefnu og hug­san­lega viðbrögð við þróun á fast­eigna- og fjár­mála­markaði.

Gildi og Live selja fyrir milljarð í fast­eignafélögum

Gildi líf­eyris­sjóður seldi fyrir um það bil milljarð Eik, Heimum og Reitum og keypti á móti fyrir um það bil 500 milljónir í Kviku banka, sam­kvæmt saman­tekt Akkurs. Gildi minnkaði hlut sinn í Eik um 24 milljónir hluta, eða 0,7 pró­sentu­stig, og í Heimum um 13,6 milljónir hluta​.

Líf­eyris­sjóður verzlunar­manna seldi fyrir um 1 milljarð króna í mars í Eik, um 80 milljónir hluta, og hefur nú selt helming þeirra bréfa sem sjóðurinn átti í félaginu í upp­hafi árs.

Sjóðurinn lét jafn­framt af hendi 25 milljónir hluta í Kvika banka og minnkaði þannig hlut sinn þar úr 9,4% niður í 8,9%​.

Festa líf­eyris­sjóður færði sig einnig á milli fast­eignafélaga í mars og seldi fyrir um 500 milljónir króna í Heimum. Jafn­virði fjárins var síðan nýtt til kaupa í Eik, þar sem sjóðurinn bætti við sig 40 milljónum hluta, og hefur þannig aukið hlut sinn í félaginu í 2% frá áramótum​.

Sjóðir í rekstri hjá eignastýringar­fyrir­tækinu Stefni seldu saman­lagt 2% hlut í Nova í mars fyrir um 300 milljónir króna. Þar með hefur eignar­hlutur Stefnis í Nova minnkað veru­lega frá áramótum.

Þá keypti Fjár­festingafélagið Skel rúm­lega 10% hlut í fjar­skipta­félaginu Sýn, fyrir rúm­lega 500 milljónir króna. Þar með er Skel orðinn þriðji stærsti hlut­hafi í félaginu​.