Fjárfestar um alla Evrópu hafa orðið fyrir gríðarlegu fjárhagslegu áfalli eftir að sænski rafhlöðuframleiðandinn Northvolt varð endanlega gjaldþrota í dag.

Meðal þeirra sem tapa stórum fjárhæðum eru dönsku lífeyrissjóðirnir Danica, ATP og PFA, ásamt stórfyrirtækjum á borð við Danske Bank og Volvo.

Northvolt var lengi vel talinn lykilþáttur í grænum orkuskiptum Evrópu og hafði félagið safnað yfir 100 milljörðum danskra króna frá fjárfestum, bæði frá lífeyrissjóðum og stórum bílaframleiðendum, samkvæmt Børsen.

Þrátt fyrir bjartsýni á fyrstu árum starfseminnar og stuðning frá fjármálastofnunum og bílafyrirtækjum eins og Volkswagen og Volvo, tókst ekki að tryggja rekstrargrundvöll félagsins.

„Sorgardagur fyrir grænu umskiptin“

Danica Pension, sem lagði 837 milljónir danskra króna í verkefnið árið 2020, lýsir yfir miklum vonbrigðum með þróun mála. Um er að ræða um 924 milljónir danskra króna að núvirði eða um 18,5 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins

„Gjaldþrot Northvolt er sorgardagur fyrir græn orkuskipti í Evrópu. Við höfum reynt að vernda fjárfestingar okkar viðskiptavina, en því miður tókst ekki að tryggja rekstur félagsins áfram,“ segir Poul Kobberup, fjárfestingastjóri Danica Pension.

Svipuð skilaboð berast frá Danske Bank, sem lánaði Northvolt fé. Bankinn segist hafa gert allt sem í hans valdi stóð til að styðja félagið en að nú sé beðið eftir niðurstöðum skiptastjóra.

Lífeyrissjóðurinn PFA hafði þegar fært niður virði fjárfestingar sinnar í Northvolt og því munu viðskiptavinir sjóðsins ekki finna fyrir nýjum áhrifum af gjaldþrotinu.

„Við áttum von á þessu og tókum skref til að draga úr áhrifunum á okkar sjóðfélaga,“ segir Peter Tind, fjárfestingastjóri PFA.

ATP, sem er stærsti lífeyrissjóður Danmerkur, var nú þegar búinn að afskrifa 2,3 milljarða danskra króna fjárfestingu í félaginu.

„Við erum vonsvikin með þróunina, en þetta var áhættufjárfesting sem við gerðum í takt við þá jákvæðu framtíðarsýn sem var fyrir grænar fjárfestingar á þeim tíma,“ segir Mikkel Svenstrup, fjárfestingastjóri ATP.

Bílarisar meðal stærstu tapara

Northvolt naut einnig mikils stuðnings frá evrópskum bílaframleiðendum. Volvo hafði fjárfest yfir 2 milljarða danskra króna í fyrirtækinu og lýsir gjaldþrotinu sem „miklum vonbrigðum“ fyrir evrópska rafhlöðuframleiðslu.

Volkswagen, stærsti einstaki hluthafinn í Northvolt með 21% eignarhlut, hafði yfir 5 milljarða danskra króna í fyrirtækinu, en samkvæmt heimildum Reuters og Financial Times hafði stór hluti þeirrar fjárfestingar þegar verið færður niður.

Gjaldþrot Northvolt er gríðarlegt áfall fyrir evrópska iðnaðar- og orkumarkaði, þar sem fyrirtækið var talið eitt mikilvægasta framtaksverkefni á sviði sjálfbærrar orkunýtingar. Ljóst er að fjárfestar þurfa nú að horfa til annarra leiða til að tryggja áframhaldandi uppbyggingu rafhlöðuframleiðslu í Evrópu.