Lagaleg staða skuldabréfaeigenda ÍL-sjóðs gagnvart ríkinu sem skuldara og ábyrgðaraðila er afar sterk að mati lögmannsstofunnar LOGOS sem unnið hefur nokkuð ítarlega álitsgerð þess efnis fyrir sjóðina.
Meðal helstu niðurstaða er að sjóðurinn verði í reynd ekki álitinn sjálfstæð ríkisstofnun líkt og hinn upprunalegi Íbúðalánasjóður, heldur „verkefni sem er á borði ráðherra og hluti af ráðuneyti hans“. Af því leiði að líta beri á ríkið sjálft sem hinn eiginlega skuldara en ekki aðeins ábyrgðaraðila.
„Í ljósi stjórnsýslulegrar stöðu ÍL-sjóðs og aðkomu ráðherra að fjárhagslegum málefnum sjóðsins ber að okkar áliti að líta svo á að ríkissjóður beri beina eigendaábyrgð á öllum skuldbindingum ÍL-sjóðs.“
Líklegt að ríkið yrði rukkað um dráttarvexti
Óljóst er sagt hvort ábyrgðaraðili kröfu beri ábyrgð á dráttarvöxtum, sem safnast myndu frá þeim tíma er sjóðurinn yrði tekinn til slitameðferðar, en stofan telur eigendaábyrgð ríkisins á skuldbindingum sjóðsins einnig myndu ná til slíkra vaxta, hvort heldur sem um beina eða óbeina ábyrgð væri að ræða.
„Líkur eru því fyrir að ríkinu yrði gert að greiða dráttarvexti af gjaldfallinni skuld ÍL-sjóðs frá þeim tíma sem sjóðurinn yrði tekinn til gjaldþrotaskipta, eða í síðasta lagi mánuði eftir að ríkið er krafið um greiðslu.“
Eignarnám samkvæmt stjórnarskrá
Kröfuréttindi skuldabréfa njóti verndar eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar, sem aðeins megi takmarka án þess að við það skapist bótaskylda þegar takmarkanirnar eru „almennar, byggðar á skýrri lagaheimild og til þess fallnar að ná málefnalegum markmiðum. Þá þarf nauðsyn að hafa borið til beitingar takmörkunar til að ná markmiðum laganna og ekki má vera unnt að ná þeim með minna íþyngjandi móti.“
Ennfremur er vísað til réttmætra væntinga sem kaupendur bréfanna hafi mátt hafa um að sjóðnum yrði ekki slitið með umræddum hætti án bóta í þágildandi lagaumhverfi. Niðurstaðan sé sú að lagasetningin bryti í bága við stjórnarskrá.