Rafmyntir eru af mörgum taldar vera bylting sem gjaldmiðill, framtíð fjárfestingar og tímamótatækni. En ef þú horfi fram hjá æðinu, þá finnur þú ekkert meira en pýramídasvindl stillt upp sem gjaldmiðil,“ skrifar Jón von Tetzchner, stofnandi Opera og Vivaldi í grein á heimasíðu vafrans.
Hann telur alls óvíst hvort rafmyntir geti orðið raunverulegur gjaldmiðill og gagnrýnir auk þess hina gríðarlegu orkunotkun sem þær krefjast. Jón segir að Vivaldi vilji almennt bjóða notendum upp á fjölbreytta valkosti og sérsniðna upplifun en að vafrinn geti ekki stutt við rafmyntir með að bjóða upp á rafmyntaveski (e. crypto-wallets) líkt og aðrir vafrar. „Við neitum að klæða þessar svikamyllur (e. scams) upp sem tækifæri,“ skrifar Jón og bætir við að þetta sýndarfé geti haft mjög raunverulegar afleiðingar fyrir samfélagið og umhverfið.
„Rafmyntafantasían er hönnuð til að laða þig inn í kerfi sem er afar óhagkvæmt, eyðir gífurlegri orku, notar mikið af vélbúnaði (e. hardware) sem væri betur nýttur í aðra notkun og mun oft leiða til þess að hin meðalmanneskja tapar öllum peningunum sem hún leggur inn í það.“
Fjárfestingarbrall fremur en raunverulegur gjaldmiðill
Jón bendir á að í dag séu til yfir 8 þúsund rafmyntir samanborið við 180 lögmæta gjaldmiðla. Hann lýsir rafmyntum sem stafrænni vöru án stuðnings ríkisstjórna eða bankakerfisins. Margir haldi því fram að um sé að ræða nýjan stafrænan gjaldmiðil internetsins auk loforða um dreifstýringu (e. decentralization) og frelsis frá stjórnvöldum.
Verð á rafmyntum er hins vegar of sveiflukennt til að hægt sé að nota þær sem raunverulegan gjaldmiðil, að sögn Jóns. Í staðinn horfi fólk því á rafmyntir sem nokkurs konar fjárfestingarbrall.
„Vandamálið er að til að ná raunverulegum peningum úr kerfinu þá verður þú að finna einhvern annan sem er tilbúinn að kaupa myntirnar sem þú heldur á. Þetta gerist einungis svo lengi sem hinn aðilinn trúir að þeir geti selt þær til einhvers annars sem er tilbúinn að greiða enn meira, og svo framvegis. Ef fólk á einhverjum tímapunkti hættir að finna einhvern sem er tilbúinn að kaupa myntirnar bara út frá væntingum um að þær hækki í virði í framtíðinni, þá mun kerfið að líkindum hrynja og virði allra mynta falla niður í núll,“ skrifar Jón.
Það sem honum finnst sérkennilegast við æðið í kringum þennan heim er að enn er óljóst hvort rafmyntirnar hafi raunhæft notagildi eða hvort einhver áreiðanleg leið sé til að verðmeta þær. Ef þetta liggur ekki fyrir þá eru rafmyntir að hans mati ekkert meira en „mjög flókinn spilakassi fyrir þá sem eiga peninga til að brenna.“
Jón stofnaði Opera Software árið 1995 stuttu eftir að hann lauk námi við Óslóarháskóla. Hann lét af starfi forstjóra Opera árið 2010 og sagði endanlega skilið við félagið ári síðar. Hann seldi seinasta hlut sinn í félaginu árið 2013 og sneri aftur heim á Seltjarnarnesið með tæpa fimm milljarða króna til fjárfestinga og hefur frá þeim tíma verið duglegur að fjárfesta í íslenskum sprotafyrirtækjum. Árið 2015 stofnaði hann vafrann Vivaldi sem leggur áherslu á að aðlagast þörfum notenda og bjóða upp á fjölbreytta eiginleika.