Ársfundur Samáls var haldinn í gærmorgun í Hörpu. Yfirskrift fundarins var „Hring eftir hring eftir hring: Áskoranir og lausnir í sjálfbærni, nýsköpun og loftslagsmálum“.

Pétur Blöndal, framkvæmdastjóri Samáls, segir stóra verkefnið framundan, þegar kemur að álframleiðslu á heimsvísu, að ál verði í auknum mæli framleitt með endurnýjanlegum orkugjöfum.

„Losun frá álverum þar sem endurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir til framleiðslunnar er tæp tvö tonn á hvert framleitt tonn af áli. Við notkun kolaorku bætast við heil 15 til 20 tonn af koltvísýringi ofan á hvert tonn sem er framleitt. Stóra losunin á heimsvísu liggur þar og er til að mynda 80% af áli í Kína framleitt með kolum.“

Losun frá álverum þar sem endurnýjanlegir orkugjafar eru nýttir til framleiðslunnar, eins og á Íslandi, er tæp tvö tonn á hvert framleitt tonn af áli.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Pétur bætir við að til þess að íslensku álverin geti dregið enn frekar úr losun í álframleiðslu muni það krefjast mikillar fjárfestingar og tækniþróunar. Lítið bendi til þess að fleiri ný álver rísi hér á landi á næstu áratugum.

„Það má líkja álframleiðslu hérlendis við þorskveiðar. Við erum ekki að fara að veiða mikið meiri þorsk á morgun en í dag, en við erum stöðugt að búa til meiri verðmæti úr þeim þorski sem við veiðum. Það er sama þróun í gangi hjá álverunum núna. Ég sé ekki fram á risastökk í framleiðslumagni í náinni framtíð. En öll álverin eru hins vegar að ganga lengra í virðiskeðjunni og framleiða flóknari og verðmætari afurðir.“

Nánar er fjallað um álverin í Viðskiptablaðinu sem kom út í morgun.