Sérfræðingar vara nú við því að svokallaðir rafmyntasjóðir, fyrirtæki sem taka lán eða selja hlutafé til að kaupa eingöngu rafmyntir, séu orðin að eins konar „glópagulli“ fjármálamarkaðanna.
Í ritstjórnarpistli í Financial Times er bent á að þessi fyrirtæki, sem á ensku eru nefnd bitcoin treasury companies (BTCs), geti reynst fjárfestum dýrkeypt þegar næsti „rafmyntavetur“ skellur á.
Höfundurinn dregur upp sögulegar hliðstæður, meðal annars við hrunið 2008 þegar fjármálafyrirtæki tóku að setja saman skuldavafninga úr sífellt lakari lánum í von um áframhaldandi gróða.
Nú sé svipaða ævintýramennsku að finna í BTC-fyrirtækjum sem safna skuldum og hlutafé eingöngu til að kaupa rafmyntir, aðallega bitcoin.
Saga Michael Saylor og fyrirtækis hans Strategy, sem fyrr var MicroStrategy, hefur orðið fyrirmynd annarra.
Hann breytti hugbúnaðarfyrirtæki sínu í slíkan rafmyntasjóð árið 2020 og markaðsvirði þess hefur meira en tuttugufaldast síðan. Nú er Strategy metið á yfir 100 milljarða dollara – þrefalt meira en bandaríska fjármálafyrirtækið State Street.
Þessi velgengni hefur ýtt undir sprengivöxt BTC-fyrirtækja.
Samkvæmt breska miðlaranum Peel Hunt eru þau nú orðin yfir 160 á heimsvísu. Fyrirtækin hafa í mörgum tilvikum breytt starfsemi sinni algjörlega, úr hugbúnaðar- eða markaðsfyrirtækjum í hreina spákaupmennsku með rafmyntir.
Í pistli FT segir að í sumum löndum sé hægt að nýta skattalöggjöf til að greiða lægri fjármagnstekjuskatt með því að fjárfesta í gegnum slík fyrirtæki frekar en beint í rafmyntum.
Þá gætu BTC-fyrirtækin sniðgengið reglur sem banna stofnanafjárfestum eða almennum fjárfestum að kaupa rafmyntir beint, til dæmis þar sem rafmyntasjóðir eða kauphallarsjóðir með rafmyntir (ETF) hafa ekki fengið leyfi.
Einnig er bent á að ný löggjöf Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þar á meðal svonefndur „Genius Act“, hafi ýtt undir eftirspurnina með því að opna fyrir að lífeyrissjóðir geti fjárfest í rafmyntum.
Í ritstjórnarpistli FT er þó varað við að allt geti breyst þegar næsti „rafmyntavetur“ gengur í garð, líkt og gerðist 2018 og 2022 þegar verð hrundi.
Þá muni fjárfestar í BTC-fyrirtækjum finna fyrir því að hafa veðjað á ofmetinn markað, enda sé áhættan „margfölduð“ með skuldsetningu og sívaxandi bjartsýni.