Konráð S. Guðjónsson, aðalhagfræðingur Arion banka, segir líklegast að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni hækka stýrivexti um 50 punkta í fyrramálið.
Yfirlýsing peningastefnunefndar er væntanleg kl. 8:30 á morgun.
Spá Greiningardeildar Íslandsbanka og Hagfræðideildar Landsbankans, sem birtust í síðustu viku, hljóðar upp á 25 punkta hækkun.
„Okkur finnst líklegast að þeir hækki um fimmtíu punkta,“ segir Konráð.
„Það er togstreita milli þess hvort maður horfir bara beint á gögnin eins og þau blasa við okkur þar sem verðbólgan er að lækka hratt og ýmislegt aðeins að vinna með okkur. En ef maður setur þetta í samhengi við spár er verðbólgan hins vegar ekki að lækka minna en svo að þetta er í meginatriðum innan skekkjumerkja frá helstu spám.“
„Miðað við það og mjög harðan tón nefndarinnar þætti okkur eitthvað minna en 50 punkta koma á óvart,“ segir Konráð.
„Það er búið að slá þennan tón og þetta er líka spurning um trúverðugleika Seðlabankans en maður veit aldrei. Það er alveg ástæða fyrir því að margir spá 25 punktum en það er á sama tíma ekki hægt að slá út af borðinu að vextir hækki um 75 punkta.“
Verðbólguvæntingarnar vega þyngst
Tveir mánuðir eru síðan í næstu ákvörðun peningastefnunefndar en Konráð segir Seðlabankann í kappi við tímann um að reyna ná verðbólgunni niður fyrir kjaraviðræðurnar í haust.
Hann segir verðbólguvæntingarnar, sem skipta mestu máli til lengri tíma, ekkert hafa lagast og vegur það þyngst í þessu samhengi.
„Það má jafnvel segja að þær séu sterkasta ástæðan fyrir því að við teljum að vextirnir verði hækkaðir aftur og sennilega um 50 punkta,“ segir Konráð að lokum.