Kon­ráð S. Guð­jóns­son, aðal­hag­fræðingur Arion banka, segir lík­legast að peninga­stefnu­nefnd Seðla­banka Ís­lands muni hækka stýri­vexti um 50 punkta í fyrra­málið.

Yfir­lýsing peninga­stefnu­nefndar er væntan­leg kl. 8:30 á morgun.

Spá Greiningar­deildar Ís­lands­banka og Hag­fræði­deildar Lands­bankans, sem birtust í síðustu viku, hljóðar upp á 25 punkta hækkun.

„Okkur finnst lík­legast að þeir hækki um fimm­tíu punkta,“ segir Kon­ráð.

„Það er tog­streita milli þess hvort maður horfir bara beint á gögnin eins og þau blasa við okkur þar sem verð­bólgan er að lækka hratt og ýmis­legt að­eins að vinna með okkur. En ef maður setur þetta í sam­hengi við spár er verð­bólgan hins vegar ekki að lækka minna en svo að þetta er í megin­at­riðum innan skekkju­merkja frá helstu spám.“

„Miðað við það og mjög harðan tón nefndarinnar þætti okkur eitt­hvað minna en 50 punkta koma á ó­vart,“ segir Kon­ráð.

„Það er búið að slá þennan tón og þetta er líka spurning um trú­verðug­leika Seðla­bankans en maður veit aldrei. Það er alveg á­stæða fyrir því að margir spá 25 punktum en það er á sama tíma ekki hægt að slá út af borðinu að vextir hækki um 75 punkta.“

Verðbólguvæntingarnar vega þyngst

Tveir mánuðir eru síðan í næstu á­kvörðun peningastefnunefndar en Kon­ráð segir Seðla­bankann í kappi við tímann um að reyna ná verð­bólgunni niður fyrir kjara­við­ræðurnar í haust.

Hann segir verð­bólgu­væntingarnar, sem skipta mestu máli til lengri tíma, ekkert hafa lagast og vegur það þyngst í þessu sam­hengi.

„Það má jafn­vel segja að þær séu sterkasta á­stæðan fyrir því að við teljum að vextirnir verði hækkaðir aftur og senni­lega um 50 punkta,“ segir Kon­ráð að lokum.