Peninga­stefnu­nefnd Seðla­bankans var ein­róma um að halda stýri­vöxtum ó­breyttum vegna ó­vissu í tengslum við jarð­hræringar á Reykja­nesi. Nefndin var ein­róma í á­kvörðun sinni í fyrsta sinn síðan í mars en þetta var önnur vaxta­á­kvörðunin í röð þar sem nefndin hélt vöxtum ó­breyttum.

Að mati greiningar­deildar Ís­lands­banka hefðu vextir þó lík­legast verið hækkaðir ef sú ó­vissa hefði ekki verið til staðar.

„Líkur á frekari hækkun stýri­vaxta hafa aukist en þróun all­margra á­hrifa­þátta á eftir að leggjast beggja vegna á voga­skálar nefndar­fólks fram að næstu vaxta­á­kvörðun,“ segir í greiningu bankans sem Jón Bjarki Bents­son, aðal­hag­fræðingur bankans, skrifar.

Jón Bjarki vísar í um­mæli nýjasta með­lims peninga­stefnu­nefndarinnar, Ás­gerðar Ósk Péturs­dóttur í við­tali við Við­skipta­blaðið þar sem hún full­yrti að hún hefði kosið að hækka vextina í nóvember ef ekki hefði komið til jarð­hræringanna.

Helstu rök nefndarinnar fyrir ó­breyttum vöxtum voru að rétt væri að við og sjá hverju fram vindur í jarð­hræringum á Reykja­nesi vegna ó­vissu um á­hrif á efna­hags­lífið, sér í lagi ríkis­fjár­mál, ferða­þjónustu, hús­næðis­markaðinn og þar með á verð­bólgu­horfur. Sem fyrr segir réðu þessi rök úr­slitum um ó­breytta vexti í nóvember.

Þá er einnig búið að hægjast á á um­svifum í efna­hags­lífinu og að dregið hefði úr vexti einka­neyslu og fjár­festingar.

Helstu rök fyrir hækkun vaxta voru að verð­bólga væri enn þrá­lát og að verð­bólgu­horfur hefðu versnað á ný. Á­fram væru horfur á á­gætum hag­vexti, fram­leiðslu­spenna væri meiri en talið var og enn mikil spenna á vinnu­markaði.

„Í ljósi þess að á­hyggjur af miklum ham­förum á Reykja­nesi á næstunni hafa minnkað tals­vert frá vaxta­á­kvörðuninni í nóvember verða að teljast tals­verðar líkur á því að vextir verði hækkaðir við næstu vaxta­á­kvörðun Seðla­bankans þann 7. febrúar 2024,“ skrifar Jón Bjarki.

Það sé þó með öllu ó­víst hvort nefndin hækki vexti í febrúar eða eða hvort botninn hafi verið sleginn í það í ágúst síðast­liðnum.

„Í öllu falli teljum við lík­legt að frekari hækkun vaxta tæpist veru­leg. Þó er ekki hægt að úti­loka að herða þurfi að­hald peninga­stefnunnar all­nokkuð til við­bótar ef frekari hjöðnun verð­bólgu lætur á sér standa á fyrri helmingi næsta árs eða verð­bólgu­takturinn hækkar jafn­vel á nýjan leik,“ skrifar Jón Bjarki.