Þrátt fyrir að það hafi komið fáum á óvart að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi haldið stýrivöxtum óbreyttum má lesa úr hvassari tón í Framsýnni leiðsögn að líkurnar á vaxtalækkunum fyrir áramót séu minni en áður.
Þetta er mat greiningardeildar Íslandsbankasem segir að líklegt sé að nokkuð sé í að vaxtalækkunarferlið geti hafið.
Í framsýnni leiðsögn nefndarinnar í morgun segir að „peningastefnunefnd telur að núverandi aðhaldsstig sé hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið en þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalla á varkárni. Mótun peningastefnunnar mun sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.“
Í framsýnni leiðsögn nefndarinnar í maí var tekið fram að „núverandi aðhaldsstig“ væri hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið innan ásættanlegs tíma en ekkert minnst á þráláta verðbólgu. Hins vegar var sagt að mótun peningastefnunnar myndi sem fyrr ráðast af þróun efnahagsumsvifa, verðbólgu og verðbólguvæntinga.
„Við teljum því meiri líkur en áður að byrjun á vaxtalækkunarferlinu bíði fram á nýtt ár. Vaxtalækkun í október er líklega alveg út af borðinu en hugsanlega gæti vaxtalækkun hafist í nóvember ef verðbólga og verðbólguvæntingar þróast með hagfelldum hætti og skýrari merki um kólnun hagkerfisins koma fram á sama tíma,“ segir í greiningu Íslandsbanka sem Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur bankans og Birkir Thor Björnsson hagfræðingur skrifa.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði á blaðamannafundi í morgun að núverandi raunvaxtastig, sem er í grennd við 4% miðað við meðaltal framsýnna mælikvarða, væri líklega hæfilegt.
Hins vegar hafi þróun verðbólgu og efnahagslífs síðustu þrjá mánuði verið með nokkuð öðrum hætti en vænst var eftir í vor.
Ásgeir sagði áhrif nýgerðra kjarasamninga og aðgerða í ríkisfjármálum á eftirspurn annars vegar og áhrif Grindavíkur á fasteignamarkaði hafi reynst meiri en gert var ráð fyrir.