Stjórnarformaður Íslandsbanka, Linda Jónsdóttir, segir augljósa þörf á samþættingu á íslenskum fjármálamarkaði og mikil tækifæri vera til hagræðingar. Stjórn Íslandsbanka sjái fyrir sér áframhaldandi vöxt bankans og hafi þar til skoðunar jafnt innri sem og ytri vöxt.

„Það eru tækifæri sem við höfum fullan hug á að skoða,“ segir Linda í nýrri ársskýrslu Íslandsbanka.

Augljós tækifæri ef dregið verður úr eiginfjárkröfum

Í ávarpinu gerir Linda eiginfjárkröfur á íslenska banka að umfjöllunarefni. Þær séu mun hærri en í samanburðarlöndum okkar. Eiginfjárkrafan sem íslenskir bankar búa við nemi 10-13% af heildareignum, en á Norðurlöndunum sé hlutfallið alla jafna 3,0-3,5%.

„Háar eiginfjárkröfur leiða svo til meiri kostnaðar við lánveitingar, sem veikir samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðlegum markaði. Hátt eiginfjárhlutfall kallar líka á að fjármálafyrirtæki skili meiri hagnaði til að arðsemi sé ásættanleg, sem aftur hefur áhrif á þau kjör sem íslenskir bankar geta boðið.“

Linda, sem hefur verið stjórnarformaður Íslandsbanka frá sumrinu 2023, vísar í skýrslu sem Intellecon vann fyrir Samtök fjármálafyrirtækja síðastliðið haust en þar var áætlað að svokallað Íslandsálag - sem til er komið vegna hvers kyns álaga og skilyrða sem stjórnvöld hafa sett á rekstur banka hér á landi - leiði af sér að útlánavextir íslensku viðskiptabankanna séu allt að 0,96–1,15 prósentustigum hærri en gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum.

„Samanburður við Evrópulönd sýnir að skattar á íslenska bankakerfið eru mjög háir, íslenskir bankar greiða tvöfalt til þrefalt hærri skatta en að meðaltali innan Evrópusambandsins og á hinum Norðurlöndunum ef horft er til skattgreiðslna í hlutfalli við áhættuvegnar eignir bankanna,“ segir Linda.

„Þrátt fyrir að sértæk kostnaðarbyrði á fjármálafyrirtæki sé hæst hér á landi voru álögur auknar enn frekar á árinu og mikilvægt að huga að samkeppnishæfni í þessu samhengi. Augljóst rými er til úrbóta hvað þetta varðar og afar mikilvægt að skapa sambærilegt rekstrarumhverfi og í öðrum löndum í kringum okkur, ekki síst til að unnt sé að bæta kjör viðskiptavina bankanna.“

Síðar í ávarpinu segir Linda að efnahagur Íslandsbanka sé sterkur „og verði dregið úr kröfum um eigið fé fjármálafyrirtækja eru í því augljós tækifæri fyrir bankann“.

Spennt fyrir áframhaldandi söluferli ríkisins

Linda nefnir einnig söluferli ríkisins á eignarhlut sínum í Íslandsbanka. Síðasta ríkisstjórn hafði áformað að selja helming af hinum 42,5% hlut sem ríkið á enn af útgefnu hlutafé í bankanum. Salan frestaðist við þingrof og stjórnarskipti en Linda segir að ötullega hafði verið unnið að undirbúningi hennar innan bankans.

„Íslandsbanki var ekki á meðal umsjónaraðila sölunnar og einbeitir sér að því að tryggja sem bestan rekstur bankans og arðsemi, sem ýtir undir áhuga kaupenda, auk þess að veita þær upplýsingar sem þarf um reksturinn vegna sölunnar. Af hálfu bankans er allt tilbúið og við erum reiðubúin að taka upp þráðinn á ný þegar stjórnvöld taka af skarið um áframhald söluferlisins.

Það er skoðun stjórnar og stjórnenda bankans að rétt sé að halda áfram með þau áform um að selja eftirstandandi eignarhlut ríkisins við fyrsta tækifæri svo ná megi yfirlýstu markmiði ríkisins um að losa bankann úr opinberu eignarhaldi. Við tímamót af því tagi skapast oft tækifæri og bankinn er spenntur að mæta nýjum straumum sem kunna að leiða af slíkum breytingum.“

Ný ríkisstjórn stefnir að almennu hlutafjárútboði á þessu ári. Fjármálaráðuneytið birti fyrir helgi frumvarpsdrög að breytingum á lögum um ráðstöfun eignarhlutar ríkisins í Íslandsbanka, þar sem greint var frá áformuðu fyrirkomulagi útboðsins.

Síðar um daginn birti Arion banki tilkynningu um að stjórn bankans hefði ákveðið að lýsa yfir áhuga á að hefja viðræður við stjórn Íslandsbanka um samruna bankanna. Stjórn Íslandsbanka sagðist ætla að taka erindið til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans.

Fjármálaráðuneytið upplýsti í dag um að það muni vinna áfram að undirbúningi á útboðinu. Í tilkynningu ráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld telji nauðsynlegt að meta málið með vönduðum hætti áður en nokkur afstaða er tekin til erindis Arion banka.