Linda Gunnlaugsdóttir hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Smyril Line Cargo á Íslandi og taka við stöðu framkvæmdastjóra hjá útflutningsfyrirtækinu Bacco Seaproducts frá og með 1. sepetmber næstkomandi. Hún mun áfram gegna stöðu framkvæmdastjóra Smyril Line Cargo á Íslandi út ágústmánuð.

„Ég hef síðastliðin átta ár stýrt mjög skemmtilegu og krefjandi uppbyggingarverkefni hjá Smyril Line. Ég mun kveðja með söknuði en á sama tíma hlakka ég mikið til nýrra verkefna hjá Bacco,” segir Linda Gunnlaugsdóttir.

Bacco Seaproducts er eitt stærsta útflutningsfyrirtæki landsins en það flytur út um 11 þúsund tonn af unnum sjávarafurðum að verðmæti 14 milljarða króna á ári inná helstu markaðssvæði fyrir íslenskan fisk. Hjá fyrirtækinu starfa nú 15 starfsmenn.

„Við erum mjög ánægð með að hafa fengið Lindu til okkar en hún hefur sýnt það á síðustu árum að hún er öflugur stjórnandi í alþjóðlegu umhverfi sem mun nýtast okkur við stækkun og þróun félagsins á komandi árum. Við höfum átt mjög gott samstarf við helstu fiskframleiðendur á Íslandi og hyggjumst gera enn betur á næstu árum,” er haft eftir Hjalta Halldórssyni, annars eigenda Bacco sem mun við ráðninguna taka við stjórnarformennsku í félaginu af Bjartmari Péturssyni meðeiganda sínum.