Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir stéttarfélagið á fullu við að undirbúa formlegar kjarasamningsviðræður við Samtök atvinnulífsins. „Þetta er vinna sem er í fullum gangi undir verkstjórn ríkissáttasemjara. Það ætti að skýrast á næstu dögum hvort við náum saman um skammtímasamning. Ef það næst ekki erum við komin í annan fasa, sem er langtímasamningur.“

Ragnar Þór bendir á að kjarasamningsgerð sé mikil vinna og tímaramminn til að ná saman um skammtímasamning því orðinn ansi knappur. Hann er því mátulega bjartsýnn á að samningar náist fyrir jól. Ragnar Þór vill ekki tjá sig efnislega um kjarasamninga SGS við SA en kveðst hafa viljað sjá verkalýðshreyfinguna vera meira samstiga í því að fara í kjarasamningsviðræðurnar með ákveðin heildarmarkmið í huga, bæði hvað varðar aðkomu stjórnvalda auk annarra atriða sem gætu gagnast heildinni.

Ragnar Þór telur samningsstöðu VR og annarra stéttarfélaga verri í kjölfar samninga SA og SGS. „Halldór Benjamín [Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA] hefur lýst því yfir að þessir samningar við SGS séu fordæmisgefandi á allan markaðinn. Þessi orð hans gefa til kynna að staða okkar sé flóknari fyrir vikið.“

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.