Samkeppniseftirlitið eyðir aðeins hverfandi hlutfalli af ráðstöfunartíma sínum í rannsókn á samkeppnishömlum hins opinbera. Árið 2022 nam umrætt hlutfall einungis 4% en 96% ráðstöfunartímans fór í rannsóknir á hendur einkaaðilum, samkvæmt síðustu ársskýrslu stofnunarinnar.

Samkeppniseftirlitið eyðir aðeins hverfandi hlutfalli af ráðstöfunartíma sínum í rannsókn á samkeppnishömlum hins opinbera. Árið 2022 nam umrætt hlutfall einungis 4% en 96% ráðstöfunartímans fór í rannsóknir á hendur einkaaðilum, samkvæmt síðustu ársskýrslu stofnunarinnar.

Halldór Brynjar Halldórsson, lögmaður og eigandi hjá LOGOS, bendir á þetta í aðsendri grein sem birtist á vb.is í dag. Þar veltir hann því upp hvort það kunni að vera leið til aukinnar sáttar í atvinnulífinu um hlutverk og starfsemi Samkeppniseftirlitsins ef stofnunin myndi í auknum mæli beina athygli sinni og kröftum af samkeppnishömlum sem stafa frá hinu opinbera.

„Vænta má þess að atvinnulífið eins og það leggur sig fagni öllum tilraunum Samkeppniseftirlitsins til að draga úr samkeppnishamlandi athöfnum hins opinbera. Er því bagalegt að svo hverfandi hluti ráðstöfunartíma stofnunarinnar sem raun ber vitni fari í slíkar rannsóknir.“

Samkeppnishömlur hins opinbera jafn ofarlega í huga Íslendinga

Hann bendir á að niðurstöður viðhorfskönnunar sem Samkeppniseftirlitið lét framkvæma um mitt ár 2023 voru á þann veg að 8 af hverjum 10 Íslendingum höfðu upplifað vandamál sökum skorts á samkeppni á einhverjum markaði.

„Hins vegar kom fram í sömu könnun að sama hlutfall telji mikilvægt að stefna stjórnvalda ýti undir virka samkeppni, og að mikilvægt sé að draga úr forskoti samkeppnisaðila sem njóti ríkisstyrka,“ segir Halldór Brynjar.

„Virðist þannig sem samkeppnishömlur á vegum hins opinbera séu Íslendingum a.m.k. jafn ofarlega í huga og samkeppnishamlandi hegðun einkaaðila.“

Háttsemi Sjúkratrygginga gott dæmi

Halldór Brynjar dregur í greininni fram nýlegt dæmi um íhlutun Samkeppniseftirlitsins á hendur hinu opinbera. Málið laut að kvörtun fyrirtækisins Intuens segulómun ehf. yfir neitun Sjúkratrygginga Íslands á að gera sambærilegan samning við fyrirtækið um greiðsluþátttöku og stofnunin hafði gert við önnur einkafyrirtæki á markaðnum.

Í afdráttarlausu áliti sem Samkeppniseftirlitið birti í byrjun sumars kemur m.a. eftirfarandi fram um neitun Sjúkratrygginga:

„Synjun á samningi um greiðsluþátttöku leiðir því ekki eingöngu til tjóns fyrir þann aðila sem óskar eftir samningnum líkt og Intuens heldur einnig ríkisins sem kaupanda þjónustunnar og þar með skattgreiðenda. Að óbreyttu kæmi því tæplega til bættrar þjónustu og lægra verðs, enda stæði hið opinbera í vegi fyrir innkomu nýrra aðila á markaðinn og þar með aukinni samkeppni á honum. Er þetta einnig þvert á þau markmið sem birt voru í skýrslu starfshóps heilbrigðisráðherra frá árinu 2022 um betri nýtingu skattfjár sem aukin samkeppni ætti að leiða til.“

Samkeppniseftirlitið beindi því þeim tilmælum að tryggt væri að Intuens nyti jafnfræðis gagnvart öðrum fyrirtækjum á markaðnum.

Halldór Brynjar bendir á að þar sem sérlög heimiluðu háttsemi Sjúkratrygginga gat Samkeppniseftirlitið ekki gripið til bindandi aðgerða gegn stofnuninni og birti því niðurstöðu sína í formi álits.