Kjarasamningar á almenna vinnumarkaðnum hafa stundum gefið tóninn fyrir þann opinbera. Á því eru þó veigamiklar undantekningar eins og til dæmis á árinu 2014. Á fyrri hluta þess árs var gerður eins árs samningur á almenna vinnumarkaðnum. Tókust forsvarsmenn Alþýðusambands Íslands (ASÍ) og Samtaka atvinnulífsins (SA) í hendur um að varðveita stöðugleika í efnahagslífinu með því að semja um 2,8% launahækkun.

Nokkrum mánuðum eftir þennan sáttasamning er óhætt að segja að hið opinbera hafi sett allt í háaloft með því að semja við kennara og lækna á allt öðrum forsendum en gert hafði verið í samningi SA og verkalýðshreyfingarinnar. Í staðinn fyrir að tala um að varðveita efnahagslegan stöðugleika var talað um réttlæti og leiðréttingu.

Þetta hafði þau áhrif að þau stéttarfélög sem samið höfðu um 2,8% launahækkun og fleiri, sem voru með lausa samninga vorið 2015, miðuðu sína kröfugerð við þær hækkanir sem læknar og kennarar fengu. Afleiðingarnar urðu þær að hér logaði allt í verkföllum á fyrri hluta árs 2015. Hér áður gerðist það einnig reglulega að úrskurðir kjararáðs settu allt í uppnám á vinnumarkaði.

Í þessu kristallast svolítið vandinn í kjaramálum hérlendis. Menn setjast við samningaborðið á ólíkum forsendum og hið opinbera og almenni vinnumarkaðurinn ganga ekki alltaf í takt. Þegar engin samstaða er um launastefnuna í landinu verður niðurstaðan alltaf sú sama, höfrungahlaup á vinnumarkaði.

Frá árinu 2014 hafa laun á opinbera vinnumarkaðnum hækkað umfram laun á þeim almenna. Er þá sama hvort litið er á þróun launavísitölu eða launarannsókn Hagstofu Íslands. Ljóst er að á meðan upplausn ríkir á almenna vinnumarkaðnum eins og nú munu samninganefndir opinberu stéttanna halda að sér höndum því þær vita ekki enn hvar ráin er og hversu mikið þær geta mögulega hækkað hana.

Sé horft á efnahagsástandi er svigrúmið samt lítið sem ekkert því hér mælist verðbólga tæp 10%, stýrivextir eru 6,5%, gert er ráð fyrir 120 milljarða króna halla á ríkissjóði og fjárhagsstaða sveitarfélaga, sér í lagi Reykjavíkurborgar, er afar slæm.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu, sem kom út á fimmtudaginn. Áskrifendur geta nálgast fréttaskýringuna hér.