Undirstofnanir ráðuneytanna eru um 160 talsins. Dómsmálaráðuneytið er með flestar stofnanir, alls 38, og næst koma mennta- og barnamálaráðuneytið með 30 stofnanir og er menningar- og viðskiptaráðuneytið með 21 stofnun.
Á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er að finna hátt í 200 frumvörp sem ráðherrar hyggjast leggja fram á núverandi þingi. Athygli vekur að aðeins tvö ráðuneyti ætla að legga fram frumvörp um sameiningar stofnana.
Umfangsmestu breytingarnar verða hjá umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem leggur til að Orkustofnun og sá hluti af starfsemi Umhverfisstofnunar er lýtur að loftslags- og umhverfismálum sameinist í einni stofnun. Þá er lögð til sameining Vatnajökulsþjóðgarðs, Þingvallaþjóðgarðs, Minjastofnunar Íslands og náttúruverndarsviðs Umhverfisstofnunar undir nýrri Náttúruverndar- og minjastofnun.
Að lokum er lögð til sameining Náttúrufræðistofnunar Íslands, Landmælinga Íslands og Náttúrurannsóknastöðvarinnar við Mývatn í nýrri Náttúruvísindastofnun. Í upphafi var lagt til að Veðurstofa Íslands og Íslenskar orkurannsóknir myndu falla þar undir en ákveðið var að falla frá þeim áformum að svo stöddu.
Dómsmálaráðherra hefur einnig boðað frumvarp um sameiningu héraðsdómstóla í haust. Þannig yrði til einn héraðsdómstóll en hann yrði með starfsstöðvar á þeim stöðum þar sem héraðsdómstólar eru nú. Upprunalega stóð til að samhliða yrði kynnt frumvarp um sameiningu sýslumannsembætta en Guðrún Hafsteinsdóttir, sem tók við af Jóni Gunnarssyni sem dómsmálaráðherra í sumar, tilkynnti á fundi í síðustu viku að ekkert yrði af því.
Engin mál í þingmálaskrá boða breytingar á fjölda framhalds- eða háskóla, þótt ýmsum tillögum hafi verið kastað fram á árinu. Mennta- og barnamálaráðherra skipaði í vor stýrihóp um eflingu framhaldsskóla sem falið var að skoða aukið samstarf eða sameiningu nokkurra skóla.
Mikil andstaða virðist vera um sameiningu framhaldsskóla, til að mynda Menntaskólans við Sund og Kvennaskólans annars vegar og Menntaskólans á Akureyri og Verkmenntaskólans á Akureyri hins vegar.
Menn virðast þó jákvæðari fyrir sameiningum á háskólastiginu, til að mynda með sameiningu Háskólans á Hólum og Háskóla Íslands en viljayfirlýsing þess efnis var undirrituð af skólunum og háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, í ágúst.
Á sviði menningar- og viðskiptaráðuneytis vekur það þá athygli að skýrsla starfshóps sem falið var að kanna möguleika á sameiningu Samkeppniseftirlitsins og Neytendastofu hefur ekki enn litið dagsins ljós en til stóð að skýrslunni yrði skilað í mars á þessu ári, skv. svari ráðherra við áðurnefndri fyrirspurn Diljár Mistar.
Ef frumvörp ráðherra ganga eftir fækkar stofnunum um þrettán, en fjórtán með fyrrnefndum áformum um sameiningu háskóla. Þannig er ljóst að stofnanir verða áfram langt frá sviðsmynd fjármálaráðherra um að þær verði 90 talsins.
Velta má fyrir sér hvort mikið svigrúm sé til frekari sameininga ef andstaðan reynist mikil á öllum sviðum. Ekki er ólíklegt að ráðherrar, einna helst ráðherrar sem fara með málefni háskóla og framhaldsskóla, muni þurfa að taka erfiðar ákvarðanir með tilheyrandi gagnrýni þegar kemur að hagræðingu á næstu árum.
Nánar er fjallað um sameiningar stofnana í Viðskiptablaðinu, sem kom út á miðvikudag. Áskrifendur geta lesið fréttina í heild hér.