Ríkisendurskoðun telur að efla þurfi stýringu á upplýsingatæknimálum ríkisaðila, bæði hvað varðar innkaup og tæknileg viðmið. Kostnaður vegna innkaupa ríkisaðila á upplýsingatækni hefur verið metinn á bilinu 12–15 milljarða króna árlega.
„Stefna, stjórnun og rekstur upplýsingatæknimála ríkisaðila hafa verið dreifstýrð og ábyrgð legið hjá einstökum stofnunum. Samhæfing hefur því verið lítil sem engin,“ segir í tilkynningu Ríkisendurskoðunar um niðurstöður nýrrar hraðúttektar stofnunarinnar sem voru kynntar fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í dag.
Ríkisendurskoðun segir eitt af einkennum íslenska stofnanakerfisins vera fjölda smærri stofnana og oft á tíðum takmörkuð þekking og reynsla hvað upplýsingatækni varðar.
„Stigin hafa verið skref í þá átt að minnka vægi dreifstýringar en frá því að verkefnastofa um Stafrænt Ísland var sett á laggirnar árið 2018 hafa ýmsar ráðstafanir verið gerðar til að samræma nálgun, einkum um stafræna þjónustu. Eiginleg ábyrgð stofnana á upplýsingatæknimálum hefur þó í eðli sínu ekki breyst.“
Þrír birgjar með nær öll viðskiptin
Í skýrslunni kemur fram að fáir birgjar séu með langstærsta hluta af viðskiptum í upplýsingatækni.
„Af þeim ríkisaðilum sem kaupa hvað mest af þjónustu í sérsmíðuðum hugbúnaði eru þrír birgjar með nær öll viðskiptin, þar af einn með um 60%.“
Jafnframt kemur fram að heildstætt yfirlit um sérsmíðaðan hugbúnað ríkisaðila og kostnað vegna hans sé ekki til. Að mati Ríkisendurskoðunar þarf að bæta úr því.

