Úrvalsvísitalan lækkaði um 0,3% í 1,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Marels sem lækkuðu um 0,8% í 250 milljóna króna viðskiptum.

Aðeins 13 milljóna króna velta var með hlutabréf Skeljar fjárfestingarfélags sem tilkynnti á laugardaginn um stóra fjárfestingu í Belgíu. Gengi hlutabréfa Skeljar hækkaði um tæp 2% í litlum viðskiptum við opnun Kauphallarinnar en endaði daginn í 15,3 krónum á hlut og stóð því í stað frá dagslokagengi félagsins á föstudaginn.

Félag í jafnri eigu Skeljar og Axcent Scandinavia AB sem á og rekur sænska verslunarfélagið Åhléns tilkynnti um kaup á belgíska verslunarfélaginu Inno sem rekur 16 stórverslanir. Fjárfesting Skeljar í verkefninu nemur um 3% af heildareignum fjárfestingarfélagsins.

Oculis og Icelandair hækkuðu mest af félögum aðalmarkaðarins. Gengi Icelandair hækkaði um 1,9% í 180 milljóna veltu og stendur nú í 0,86 krónum á hlut. Flugfélagið mun birta árshlutauppgjör fyrir annan fjórðung í vikunni.