Samkvæmt mánaðarlegri spurningakönnun HMS telja fasteignasalar virkni á fasteignamarkaði vera litla miðað við árstíma. Könnunin var framkvæmd í byrjun maí og var send á þá 330 félagsmenn Félags fasteignasala.

Alls bárust 140 svör og töldu 9% svarenda mjög litla virkni vera á fasteignamarkaði þessa stundina, miðað við árstíma. Um 53% sögðu að virknin væri frekar lítil miðað við árstíma.

„Um þriðjungur þeirra sem miðla helst fasteignum á höfuðborgarsvæðinu er á því að virknin sé venjuleg þessa stundina. Á landsbyggðinni, og þá helst meðal þeirra sem selja fasteignir á Akureyri, er virknin meiri en á höfuðborgarsvæðinu, en þar fyrir utan er einungis rétt um einn af hverjum tíu fasteignasölum sem telur að virkni markaðar sé frekar mikil,“ segir á heimasíðu HMS.

Meirihluti fasteignasala er á því að markaðurinn sé hvorki á valdi kaupenda né seljenda. Af þeim sem telja fasteignamarkaðinn vera annaðhvort á valdi kaupenda eða seljanda er yfirgnæfandi meirihluti, eða ríflega 9 af hverjum 10, sem svara því til að markaður sé á valdi kaupenda fremur en seljenda þessa stundina.