Þrátt fyrir mikla sviptivinda í Kauphöllinni í fyrra var fjöldi tilkynninga um skortstöður svipaður og árið á undan. Alls var tilkynnt um 52 skortstöður árið 2023 en tilkynningarnar voru fimmtíu árið á undan.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í ritinu Fjármálaeftirliti sem Seðlabankinn gefur út árlega. Sam­kvæmt Evrópu­reglu­gerð frá árinu 2017 þarf að til­kynna fjármálaeftirliti Seðlabankans um allar skort­stöður í hluta­bréfum sem fara yfir eða undir við­miðunar­mörk sem nema 0,2% af út­gefnu hluta­fé fé­lagsins.

Þrátt fyrir að Úrvalsvísitalan hafi lækkað um 1,7% einkenndist þróunin á árinu af miklum sveiflum. Þannig lækkaði vísitalan um 12,7% í maímánuði sem er mesta mánaðarlækkun vísitölunnar frá því í fjármálakreppunni sem reið yfir 2008.

Af þessu má sjá að mikill flótti fjárfesta í hlutabréfasjóðum hafi fyrst og fremst stýrt þróuninni á árinu fremur en skortstöður.

Fjöldi tilkynninga um skortstöður á árunum 2022 og 2023. Mynd tekin úr ritinu Fjármálaeftirlit 2024.

Heildarveltan dregst saman

Fram kemur í ritinu að heildarvelta með hlutabréf á aðalmarkaði Kauphallarinnar var ríflega 769 milljarðar í fyrra og dróst sem um tæpan fjórðung milli ára. Mesta veltan var með hlutabréf í Marel og Arion en viðskipti voru fyrir 100 milljarða með hvort félag á árinu.

Fjöldi viðskipta á aðalmarkaðnum var 94 þúsund og dróst saman um 14,5% milli ára. Mestur fjöldi viðskipta var með hlutabréf í Icelandair en alls skiptu hlutabréf félagsins um hendur í 15.531 skipti á árinu.

Mynd tekin ritinu Fjármálaeftirlit 2022.

Átta milljón króna meðalvelta í viðskiptum

Þá kemur fram í Fjármálaeftirliti að meðalfjárhæð í viðskiptum hafi verið rúmlega átta milljónir og lækkaði um tæp 13% milli ára og var helmingur af því sem hún var árið 2019.

Hægt er að leiða líkum að því að lægri meðalfjárhæðir í viðskiptum endurspegli það að almennir fjárfestar taki þátt í Kauphallarviðskiptum í auknum mæli.

Meðalfjárhæð í viðskiptum í íslensku Kauphöllinni er umtalsvert hærri en gengur og gerist á Norðurlöndunum. Meðalfjárhæðin er næst hæst í Danmörku en þar er meðalvelta um ein milljón króna.

Meðalvelta á aðalmarkaði Kauphallarinnar á undanförnum árum.