Birgir Jónsson, forstjóri PLAY, segir í samtali við Viðskiptablaðið að bæði hann og starfsmenn flugfélagsins séu nú að vinna hörðum höndum að því að berjast gegn falsfréttum sem tengjast eldgosinu á Reykjanesskaga.
Hann óttast að bæði flugfélagið og ferðaþjónustan séu að missa stjórn á umræðunni og eru til að mynda fréttir á nokkrum af stærstu fréttamiðlum heims sem segja að eitrað gos hafi lagst yfir Reykjavík og nágrenni.
„Bara um leið og gosið byrjaði fóru miðlar að skrifa um það að versta mögulega sviðsmynd hafi átt sér stað. Þá höfðu þeir talað við einhverja vísindamenn, og ég skil að þeir þurfa að hafa tjáningarfrelsi, en þetta er pínu eins og að hringja í einhvern starfsmann hjá Seðlabankanum og ef þeim líst ekkert á efnahaginn þá er bara skrifað: „Central Bank says...“.
Birgir segir málið alvarlegt enda séu fleiri milljarðar undir fyrir alla ferðaþjónustuna á Íslandi, ekki bara flugfélögin. „Við erum að reyna að nota okkar tengslanet til að svara þessu og koma okkar skilaboðum áleiðis því það lítur þannig út í fjölmiðlum erlendis eins og Ísland sé bara ónýtt sem áfangastaður.“
Flugfélagið PLAY hefur þegar fundið fyrir breytingum á bókunum og segir Birgir að höggið hafi sérstaklega komið þegar fjölmiðlar komust inn í Grindavík og náðu að mynda sprungur og rifnar götur.
„Það hafði mikil áhrif á þá farþega sem koma til landsins með stuttum fyrirvara í þessar kósí-jólaferðir eða til að skoða norðurljós. Þú gerir það náttúrulega ekkert ef það er bara „Iceland declares emergency.“
Birgir segist skilja það að fréttamiðlar séu í mikilli samkeppni og að það sé ekkert gaman að vera með skynsamar fréttir um að ekkert sé að gerast. Sviðsmyndirnar geta þá líka verið verri fyrir ákveðin svæði en ekkert endilega fyrir allt landið.
„Eyjafjallajökull var til dæmis flottasta markaðsherferð sem eitthvað land hefur farið í. Við sjáum líka mikið af fólki sem vill koma til Íslands til að skoða bæði gosið og náttúruna, sem á að vera síbreytileg og hörð og allt getur gerst. Auðvitað er þetta ekki gaman fyrir Grindvíkinga, en fyrir Ísland sem vörumerki þá er þetta frábær herferð ef þetta fer á besta veg,“ segir Birgir.