Lífeyrissjóður verzlunarmanna (LIVE), næst stærsti lífeyrissjóður landsins hefur ákveðið að ganga að tilboði ríkisins um uppgjör skuldabréfa ÍL-sjóðs sem kynnt var á dögunum.
LIVE segir í tilkynningu að frá því að tilboðið var kynnt þann 10. mars sl. Hafi sjóðurinn farið ítarlega yfir tillögur sem ráðgjafar lífeyrissjóða annars vegar og viðræðunefnd fjármálaráðherra hins vegar lögðu fram um uppgjör HFF34 og HFF44 bréfa og greidd verða atkvæði um á fundum skuldabréfaeigenda 10. apríl nk.
Í framkominni tillögu felst að kröfur verði efndar með afhendingu ríkisskuldabréfa, annarra verðbréfa og reiðufjár í gjaldeyri og íslenskum krónum, en samþykki 75% kröfuhafa á fundi þarf til að tillögurnar verði samþykktar.
„LIVE hefur að lokinni ítarlegri yfirferð og greiningu metið tilboðið ásættanlegt sé litið til heildarhagsmuna sjóðfélaga og mun því greiða atkvæði með tillögunum á fundum skuldabréfaeigenda.“
LIVE átti íbúðabréf að virði 83,5 milljarðar króna í árslok 2024 samkvæmt nýútgefinni ársskýrslu lífeyrissjóðsins.
Viðskiptablaðið greindi frá því fyrir helgi að Gildi lífeyrissjóður, sem er meðal stærstu eigenda HFF-bréfa, hefði ákveðið að hafna ofangreindri tillögu.
Davíð Rúdólfsson, framkvæmdastjóri Gildis, sagði meginástæðuna fyrir afstöðu sjóðsins vera að hann sé ósammála verðlagningu á bréfunum sem ríkið bjóði á móti.
„Ávöxtunarkrafa á þeim löngu ríkisskuldabréfum sem ríkið hyggst afhenda sem gagngjald fyrir bréfin er ekki ásættanleg. Hún er einfaldlega lægri en við erum tilbúin að greiða fyrir slík ríkisskuldabréf, bréf sem eru með lokagjalddaga umtalsvert lengra fram í tímann heldur en þau ríkisskuldabréf sem útgefin eru á markaðinum í dag,“ sagði Davíð í samtali við Viðskiptablaðið á föstudaginn.