Samkvæmt flöggunartilkynningu til Kauphallarinnar seldi Lífeyrissjóður verzlunarmanna 14.039.575 hluti í Sýn í gær, sem nemur öllum hlutum sjóðsins í félaginu.
Líkt og Viðskiptablaðið greindi frá í gær var tilkynnt um viðskipti með 22,5 milljón hluti í Sýn á genginu 22,4 krónur sem samsvarar um 504 milljónum króna. Hlutabréfaverð félagsins hækkaði um 3,6% í örviðskiptum í kjölfarið og fór upp í 23 krónur á hlut.
Gengi Sýnar hefur hækkað enn frekar í viðskiptum dagsins og stendur nú í 24,8 krónum á hlut eftir um 5% hækkun í 20 milljón króna viðskiptum í morgun.
Enn hefur ekki verið tilkynnt hver var á kauphliðinni í sölu LIVE en ljóst er að lífeyrissjóðurinn fellur út af lista yfir 20 stærstu hluthafa félagsins.